Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Einn liggur á Landspítala með COVID-19

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso
Einn sjúklingur liggur nú á Landspítala með virkt kórónuveirusmit og því til viðbótar liggja 22 á spítalanum sem hafa lokið einangrun. Enginn er nú á gjörgæslu með COVID-19. Um 60% virkra smita eru hjá fólki undir þrítugu.

Í færslu farsóttanefndar Landspítala á vefsíðu spítalans segir að nú séu 143 sjúklingar undir eftirliti COVID-19 göngudeildar, þar af eru 29 börn. Frá upphafi faraldursins hér á landi hafa 316 verið lagðir inn á spítala með COVID-19, þar af 53 á gjörgæslu. 

Fyrir rúmum tveimur mánuðum, 25. október, lágu 52 á Landspítala með virkt COVID-19 smit og hafa þeir aldrei verið fleiri.

Af þeim 142 sem nú eru með virkt kórónuveirusmit í landinu eru 83, eða tæp 60%, yngri en 30 ára. Þar af eru langflestir, eða 54, á aldursbilinu 18-29 ára. Í þeim aldurshópi einum og sér eru nú 40% virkra smita á landinu. Þetta er líka sá aldurshópur þar sem fjöldi uppsafnaðra smita á hverja 1.000 íbúa er langmestur. Hann er 16,9, en í þeim aldurshópi sem næstur kemur er þessi fjöldi 12,1.

Fjórir landshlutar eru nú án kórónuveirusmits; Austurland, Norðurland eystra, Norðurland vestra og Vestfirðir.