Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Brexit eykur vanda breskrar útgerðar

29.12.2020 - 14:47
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Í tíu mínútna ávarpi á aðfangadag þegar Boris Johnson forsætisráðherra Breta kynnti fríverslunarsamning Breta við Evrópusambandið hnykkti hann á að með útgöngu úr Evrópusambandinu hefðu Bretar nú aftur stjórn á eigin fiskveiðum.

Raddir úr sjávarútvegi segja þó annað – staða greinarinnar verði mögulega verri eftir Brexit eins og Barry Deas framkvæmdastjóri breska sjómannasambandsins heldur fram í viðtali við Spegilinn

Forsætisráðherra með fiskabindi kynnir nýjan samning 

Þegar Boris Johnson forsætisráðherra Breta kynnti á aðfangadag fríverslunarsamning Breta við Evrópusambandið var enn of snemmt að rýna í sjálfan samninginn, hann var enn óbirtur. En það mátti rýna hálsbindi forsætisráðherra sem var með fiskamynstri.

Boðskapur forsætisráðherra: breskur kvóti eykst

Veigamikill þáttur í loforði Brexitsinna frá upphafi var þetta að sem fullvalda strandríki öðluðust Bretar nú aftur stjórn á fiskimiðum sínum. Eins og við mátti búast vék forsætisráðherra að sjávarútvegi í tíu mínútna ávarpi sínu: í fyrsta skipti frá því Bretar gengu í Evrópusamvinnuna 1973 væri Bretland nú sjálfstætt strandríki með fulla stjórn yfir miðum sínum.

Boðskapur forsætisráðherra var að aflahlutur Breta í breskri lögsögu myndi aukast frá um helming, sem nú er, til næstum tveggja þriðju hluta eftir fimm og hálft ár.

Loforð um 100 milljóna punda styrk til útgerðarbæja

Eftir þennan aðlögunartíma eru engin fræðileg takmörk, umfram takmörk vísinda- og verndarsjónarmiða, á því sem við getum veitt á eigin miðum, sagði forsætisráðherra. Ríkisstjórnin hyggst leggja sjávarplássum til 100 milljónir punda til að auðvelda þeim að nýta tækifærin eftir aðlögunartímann.

Gagnrýnin: 100 milljónir hrökkva skammt – kvóti án markaðar gagnslaus

Gagnrýnin hefur þó ekki látið á sér standa. Hundrað milljónir dropi í hafið. Og, það sem vantaði í kynningu forsætisráðherra og fiskveiðital Brexitsinna almennt er að kvóti er eitt, aðgengi að mörkuðum annað – án markaðar dugir lítið að veiða fisk. Samkvæmt nýja samningnum getur ESB lagt tolla á breskar sjávarafurðir ef Bretar taka sér kvóta eftir aðlögunartímann umfram það sem semst um.

Barry Deas: breskir sjómenn eru vonsviknir og örvæntingarfullir

Spegillinn ræddi við Barry Deas framkvæmdastjóra breska sjómannasambandsins,  National Federation of Fishermen‘s Organisations. Hver er hans sýn á nýja samninginn?

Deas sagði breska sjómenn heldur vonsvikna og örvæntingarfulla. Þeim hefði verið talin trú um að sem strandríki undir hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna myndi nýr tími hefjast þegar Bretar yfirgæfu ESB og fiskveiðistefnu þess. Gætu þá gengið að megninu af því sem fiskast í breskri efnahagslögsögu.

Brexit-loforðin og samt allt til einskis

En nei, segir Deas, sú er ekki raunin. Samningurinn veitir ESB aðgang jafnvel að miðum á milli sex og tólf mílna lögsögu og kvótaaukningin er í besta lagi smávægileg.

Svo okkur finnst, segir Deas, að þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi fullvissað okkur um nýjan fiskveiðisamning, bæði sanngjarnari og jafnari, þá hafi það allt verið til einskis. – Hluti af samningsumboði ESB var frá upphafi að fríverslunarsamningur væri háður því að það semdist um fisk.

Breska stjórnin lúffaði núna, rétt eins og 1973

Á endanum neyddist stjórnin til að lúffa, segir Deas, fórna hagsmunum sjávarútvegsins, rétt eins og gerðist þegar Bretar gerðust aðilar að Evrópusamvinnunni 1973. Hann segist þó ekki  trúa því að stjórnin hefði verið með öll þessi loforð og fullyrðingar ef hún hefði haldið að nauðsynlegar málamiðlanir yrðu svona slæmar fyrir sjávarútveginn.

Alltaf ljóst að kvóti dygði skammt án aðgengis að Evrópumarkaði

Það var þó alltaf ljóst að kvótinn einn dygði skammt ef ekki fylgdi aðgengi að Evrópumarkaði. Spurningin er því hvort loforð um kvóta var ekki alltaf án innstæðu, ekki síst af því ESB var mjög meðvitað um mikilvægi evrópsks markaðar fyrir breska sjávarútveginn. Deas segir að forsætisráðherra, líkt og aðrir ráðherrar og samningamenn Breta, hafi trúað á viðunandi málamiðlun í þeim efnum.

Í augsýn óvissutímar bresks sjávarútvegs

En í raun þá varð málamiðlunin sú að lítið ávannst varðandi kvóta, afar afar lítið, segir Deas. Nú tekur við tími óvissu. Í stað stöðugleika kemur ójafnvægi, telur Deas sem harmar að sjávarútvegurinn hafi verið leiksoppur í pólitískri umræðu bæði fyrir og eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 2016 um breska ESB-aðild.

Staðan eftir Brexit mögulega verri en áður

En er breskur sjávarútvegur þá í verri stöðu eftir Brexit en fyrir?

Mögulega já, segir Deas. Þannig eru alla vega horfurnar á næsta ári því kvótaávinningurinn er svo lítill og Bretar geta ekki lengur skipt á kvóta. Hvað tekur svo við 2026, eftir aðlögunartímann, á eftir að koma í ljós. Þá þarf að semja – og já, ESB stendur mun sterkar í þeim samningaviðræðum, segir Deas, af því sambandið getur lagt tolla á breskar fiskafurðir ef það er ósátt við breska kvótann.

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV
sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir