Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Bóluefni komið í alla landsfjórðunga

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Bóluefni er nú komið í alla landsfjórðunga og reiknað er með að bólusetningu á landsbyggðinni ljúki á morgun. Hjúkrunarfræðingur á Akureyri segir það hafa verið ótrúlega ánægjulegt að taka á móti bóluefninu í dag.

Dreifingin út á land hófst eldsnemma í morgun þegar fyrstu bílarnir fóru frá Reykjavík en einnig var flogið með bóluefnið og siglt. Fyrst var bólusett á Selfossi og svo var sprautað jafn harðan og bóluefnið barst til heilbrigðisstofnana.

Keyrðu með bóluefni milli staða

Klukkan hálf tvö renndi bóluefnabíllinn í hlað á Akureyri, en hann fór frá Reykjavík um sexleytið í morgun. Hann byrjaði á Blönduósi, fór þaðan á Sauðárkrók, Siglufjörð, Dalvík og Akureyri og endaði á Húsavík.

Hvetur alla Íslendinga til að láta bólusetja sig

Og þegar búið var að blanda bóluefnið var komið að því að fyrsti Akureyringurinn fengi sprautu. Það var Ute Helma Shelly, 78 ára íbúi á dvalarheimilinu Hlíð. „Kærar þakkir fyrir þetta. Þetta er æðislegt og hvet ég alla Íslendingar til að láta bólusetja sig því þetta er eina vopnið sem við höfum. Og ég er mjög þakklát fyrir að þeir skuli koma og framleiða þetta bóluefni á svo stuttum tíma, með samvinnu allra manna í heiminum.“

Andlegur léttir 

Jón Torfi Halldórsson, yfirlæknir HSN á Akureyri, fór strax með nokkra skammta af bóluefni til Grenivíkur til að bólusetja íbúa á öldrunarheimilinu Grenilundi. Og hann segir andlegan létti fylgja því að fá bóluefnið og þetta muni breyta starfsemi hjá einstökum stofnunum. „Það verður auðveldara að vinna marga vinnu þegar maður veit að starfsmenn eru ekki í eins mikilli hættu á að smitast. Og fyrir fólk sem kannski hefur verið lokað inni mánuðum saman er þetta gjörbylting á þeirra lífsgæðum. Ég gleðst eiginlega mest fyrir hönd gamla fólksins að fá þetta.“  

„Ég held að það séu allir býsna ánægðir hér í dag“

Inga Berglind Birgisdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur HSN á Akureyri tók á móti þeim skömmtum sem komu þangað. Og hún var mjög ánægð að geta loksins tekið á móti bóluefninu. „Það var ólýsanlegt og ótrúlega ánægjulegt eftir langan og strangan tíma. Búin að vera í þessu brasi í tíu mánuði og þetta var ánægjuleg stund verð ég að segja. Og ég held að það séu allir býsna ánægðir hér í dag.“