Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Aukin áhersla á fræðslu í nýjum þjónustusamningi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Aukin áhersla á fræðslu í nýjum þjónustusamningi

29.12.2020 - 18:00

Höfundar

Mennta- og menningarmálaráðherra segir aukna áherslu lagða á fræðsluhlutverk Ríkisútvarpsins í nýjum þjónustusamningi, auk þess sem ýmis atriði séu skýrð betur en í fyrri samningi.

Mennta- og menningarmálaráðherra skrifaði í gær undir nýjan þjónustusamning við Ríkisútvarpið. Samningurinn gildir til ársins 2023. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra segir ákveðnar áherslur í nýja samningnum.

„Það er í fyrsta lagi aukin áhersla á fræðsluhlutverk Ríkisútvarpsins og rækt við íslenska tungu. Við erum líka að einfalda samninginn og erum að skýra ýmis mál sem voru kannski óljós í fyrri þjónustusamingi, til dæmis skilgreiningar á sjálfstætt starfandi framleiðendum, rétti Ríkisútvarpsins til eignarhlutar í samstarfsverkefnum í samræmi við fjárframlög og greiðslur til listamanna. Þannig að þetta er góður samningur og hann sameinar vilja Alþingis til þess að hafa hér öflugt ríkisútvarp,“ segir Lilja.

Ráðherra segir því nýja samninginn skýrari en þann fyrri. Aðspurð um stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði segir hún það vera löggjafans að taka á því, en þjónustusamningurinn sé á milli tveggja aðila, ráðuneytisins og RÚV.

„Hins vegar vek ég athygli á því að það er viljayfirlýsing um það hvernig starfsemi RÚV á auglýsingamarkaði skal háttað og það er nýmæli og mér finnst það vera vísbending um það að við viljum hafa alla þessa hluti í lagi. Við vitum auðvitað að það hafa verið erfiðir tímar á auglýsingamarkaði og RÚV er að fullu meðvitað um það og leikreglur eru skýrari eftir að sett var á laggirnar dótturfélag.“