Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

11 greindust með „breska afbrigðið“ fyrir jólin

Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir - RÚV
Alls greindust 11 með hið svokallaða „breska afbrigði“ við skimun á landamærunum skömmu fyrir jólin. Tíu voru að koma frá Bretlandi en einn frá Danmörku. Sóttvarnalæknir sagði þetta fleiri tilfelli en í öðrum löndum. Skýringin væri sú að öll jákvæð sýni væru send í raðgreiningu hér á landi á meðan hlutfallið í öðrum löndum væri 10 til 20 prósent.

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna.  Heilbrigðisyfirvöld víða um heim hafa haft áhyggjur af breska afbrigðinu þar sem óttast er að það smitist hraðar en önnur afbrigði veirunnar.  Vísindamenn í Bretlandi hafa til að mynda kallað eftir útgöngubanni þar til að hefta útbreiðslu afbrigðisins. 

Alma Möller, landlæknir, greindi frá því á upplýsingafundinum að hún hefði setið fund Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar á Þorláksmessu. Á þeim fundi kom fram að þetta afbrigði hefði „óvenju margar stökkbreytingar á mikilvægum hlutum í veirunni, meðal annars á svokölluðum gaddapróteinum.“

Alma benti jafnframt á að afbrigðið hefði náð að breiðast út um Bretland þrátt fyrir töluvert harðar aðgerðir.  Það væri nú 70 prósent af öllum smitum sem væru að greinast þar og hefði einnig borist til annarra landa.  Smitstuðull afbrigðisins væri metinn 0,5 hærri sem væri vísbending um að það smitaðist auðveldara.

Alma sagði jafnframt að ekki væri vitað hvort þessar stökkbreytingar á afbrigðinu hefðu áhrif á virkni bóluefnisins, verið væri að rannsaka það og það taki um tvær vikur. „Það er heldur ekki vitað hvort fólk sem hefur fengið COVID-19 geti fengið þetta afbrigði eða hvort fólk verði veikara.“ Jákvæðu tíðindin væru þau að forstjóri BioNTech hefði látið hafa eftir sér að fyrirtækið gæti þróað nýtt bóluefni við þessu afbrigði á aðeins sex vikum.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV