Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Tónninn var sleginn strax í upphafi faraldursins“

Mynd með færslu
 Mynd:
Bóluefnið sem smýgur inn í upphandleggi 5000 landsmanna í vikunni á sér aðeins nokkurra mánaða sögu. Smitsjúkdómalæknir segir að virkni þess sé griðarlega mikil, en talið er að 95% þeirra sem fá bóluefnið myndi ónæmissvar gegn veirunni. Þeir sem fá bóluefnið eiga ekki að geta veikst af Covid-19 en hugsanlegt er að þeir geti sýkst af veirunni og smitað aðra.

 Ísköld mæliglös

Flugvél með tíu þúsund skömmtum af bóluefni Pfizer og BioNtech lenti á Keflavíkurflugvelli í morgun. Lítil mæliglös af -80 gráðu köldu efni sem sumir kalla kraftaverk og verður á næstu dögum sprautað í upphandleggi fólks sem tilheyrir forgangshópum, íbúa hjúkrunarheimila og framlínufólks heilbrigðiskerfinu. 

Gat ekki hugsað um annað en að finna bóluefni

Bóluefnið á sér aðeins nokkurra mánaða sögu, síðastliðið vor var það hvergi til, nema þá kannski í kollum vísindamanna, vísindamanna eins og Kathrin U. Jansen sem stýrir bóluefnasviði lyfjarisans Pfizer, sem er með höfuðstöðvar í New York. Jansen hefur áður komið að þróun bóluefna við lungnabólgu og HPV-veirunni. í samtali við bandaríska fréttaskýringaþáttinnn 60 mínútur rifjaði hún upp hvernig henni leið þegar neyðarástand ríkti í New York-borg í vor, hún fór út að ganga með hundinn og sá vörubíla með frystigáma raða sér utan við sjúkrahúsin, gámar fyrir lík því fólk dó í hrönnum. Þessi sýn jók á löngun hennar til að finna bóluefni, hún gat hreinlega ekki hugsað um annað.  

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir - RÚV
Bóluefnið kom til landsins í morgun, með flugi frá Amsterdam.

Opinn tékki

Forstjóri Pfizer sagði starfsfólki sínu að það gæti litið svo á að það hefði opinn tékka, það ætti ekki að hugsa um hagnað, bara að þróa bóluefni, sama hversu djúpt þyrfti að seilast í vasa fyrirtækisins. Jansen segir að stundum tali fólk um að bóluefnið sé kraftaverk en í hennar huga er það það ekki. „Kraftaverk er eitthvað sem bara gerist, upp úr þurru, þetta var ætlunarverk, vel undirbúið og þaulskipulagt,“ segir hún. 

Hringdu í Jansen 

Pfizer gerði þetta ekki eitt. Hjónin Uğur Şahin og Özlem Türeci eiga þýska líftæknifyrirtækið BioNtech. Fyrirtækið hefur verið leiðandi í þróun svokallaðrar mRNA tækni og byrjaði snemma í vor að þróa bóluefni, það fyrsta sem byggir á þeirri tækni. Hjónin áttuðu sig fljótlega á að þau þurftu aðstoð við að koma efninu út af tilraunastofunni, áður höfðu þau unnið með Pfizer og hringdu því í Kathrin Jansen sem hafði einmitt verið að hugsa um að taka upp tólið sjálf. 

Mynd með færslu
 Mynd: Af vef BioNTech
Ugur og Özlem sem eiga BioNtech.

Vitum við allt sem vita þarf? 

Bóluefnið fékk á dögunum markaðsleyfi í Evrópu og í gær hófu margar Evrópuþjóðir að bólusetja sitt fólk en vitum við allt sem við þurfum að vita um bóluefnið? Ég hitti Magnús Gottfreðsson, smitsjúkdómalækni, í skrifstofubyggingu Landspítalans við Skaftahlíð, en þar á einmitt að byrja að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk á morgun. Magnús var að vonum ánægður með tíðindi dagsins. Það var kannski ekki búist við bóluefni svona fljótt og nú eru ótal fyrirtæki búin að þróa efni eða langt komin með það. Deildu þau einhverjum upplýsingum sín á milli eða náðu þau bara öll að leysa gátuna á þessum stutta tíma? „Það hefur einkennt allt þetta þróunarferli að upplýsingar hafa verið gerðar aðgengilegar og það hófst með því að Kínverjar deildu upplýsingum um erfðamengi veirunnar strax í janúar, í raun og veru bara örfáum dögum eftir að veiran fannst fyrst, og þetta var gert opinbert þannig að það var hægt að taka við þessu kefli og hefjast handa við að hanna bóluefni á grundvelli þessara upplýsinga. Þannig var tónninn sleginn í upphafi, þessum upplýsingum var deilt og síðan hafa menn deilt reynslu sinni og þekkingu þvert á fyrirtæki og hafa líka fengið ríkulegan fjárstuðning úr opinberum sjóðum víða um heim.“ 

epa08340765 A man walks along the banks of the Yangtze River, in Wuhan, China, 03 April 2020. China will hold a national mourning for coronavirus Covid-19 victims on 04 April. According to Chinese government figures since the outbreak began over 3,300 people have died of Covid-19 in China, with more than 2,500 deaths happened in Wuhan, the epicenter of the coronavirus outbreak.  EPA-EFE/ROMAN PILIPEY
Borgin Wuhan í Kína. Mynd: EPA-EFE - EPA
Veiran greindist fyrst í borginni Wuhan í Kína.

Tvær sprautur á mann

Nú eru tíu þúsund skammtar komnir til landsins af bóluefni Pfizer BioNtech, það dugar til að bólusetja 5000 manns, en hver þarf tvær sprautur. Eftir sprautuna þarf fólk að vera undir eftirliti heilbrigðisstarfsfólks í 20 mínútur, því í örfáum tilvikum er hætt við ofnæmisviðbrögðum. Milli sprautanna tveggja eiga að líða þrjár vikur. Magnús segir að svo virðist sem verndandi ónæmissvar komi fram, strax eftir fyrsta skammtinn en að viku eftir seinni sprautuna eigi fólk að vera komið með fulla vernd.

Ekki mótefnamælt eftir bólusetningu

Talið er að 95% þeirra sem fá bóluefnið fái vörn gegn kórónuveirunni, það þýðir að af hverjum þúsund, eru 50 sem fá ekki vernd. Nú á að bólusetja framlínustarfsfólk í heilbrigðiskerfinu og aldraða á hjúkrunarheimilum. Í þeim hópi yrðu þá 250 sem bóluefnið virkar ekki á, stendur til að mótefnamæla fólk eftir á, til að kanna hvort það hafi sannarlega fengið vernd? „Það er nú ekki gert ráð fyrir því sem hluta af þessu bólusetningarátaki en þessi vernd sem við erum að tala um hér telst vera mjög góð í bólusetningarfræðunum, hvorki lyf né bóluefni eru algerlega hundrað prósent, en þarna er virkni bóluefnisins alveg gríðarlega mikil og hærri heldur en að væntingar stóðu til.“

Nurse Ann-Louise Broberg injects nursing home resident Gun-Britt Johnsson with a vaccine against the coronavirus disease (COVID-19) in Mjolby, Sweden, 27 December 2020. Gun-Britt was the first in Sweden to recieve the vaccine. EPA-EFE/STEFAN JERREVANG SWEDEN OUT
 Mynd: Stefan Jerrevang - EPA-EFE
Gunn-Britt Johnsson varð í gær fyrst Svía til að fá sprautuna.

Veitir hugsanlega vernd til einhverra ára

Það þarf að bólusetja um 60-70% þjóðarinnar til að ná fram hjarðónæmi. „Þá er erfiðara fyrir veiruna að hoppa manna á milli, hins vegar er það þannig að ef einhverjir hópar eru ekki bólusettir, eins og til dæmis sértrúarsöfnuðir eða ákveðnir hópar sem einangra sig kannski frá samfélaginu þá er hættan alltaf fyrir hendi að stór hópsýking geti stungið sér niður innan slíkra hópa og valdið miklu heilsutjóni,“ segir Magnús.  En hversu lengi veitir bóluefnið vernd eða ónæmi? Er hægt að skjóta á það? „Nú er það í raun alger ágiskun, ef marka má það hversu kröftugt ónæmissvarið er og við vitum það að þetta bóluefni mRNA-bóluefnið sem um ræðir framkallar frumubundið ónæmissvar með minnisfrumum að þá ætti fræðilega séð að vera til staðar ónæmisminni sem að gæti varað í einhver ár, það er kannski bjartsýn skoðun en hún byggir á þessari þekkingu sem þegar er komin fram en endanlegt svar fáum við ekki nema að fylgja fólkinu eftir.“

Ekki hægt að fá Covid-19 með bólusetningarsprautunni

Magnús Gottfreðsson smitsjúkdómalæknir
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson - RÚV
Magnús Gottfreðsson er smitsjúkdómalæknir á Landspítalanum.

Fólk verður oft svolítið slappt eða lasið eftir að hafa fengið bólusetningu við inflúensu. Getur fólk með veikt ónæmiskerfi einfaldlega fengið Covid-19 með bólusetningu? „Nei,“ segir Magnús. „Það er algerlega útilokað og það er einfaldlega vegna þess að hér er ekki um að ræða sýkil, þetta er ekki veira heldur eingöngu ein sameind sem veiran framleiðir og hún ein og sér getur ekki valdið Covid.“

Fólk sem hefur fengið Covid-19 ekki í bólusetningu

En þurfa þeir sem hafa fengið Covid-19 að láta bólusetja sig? „Til að byrja með er það ekki svo, tíðni endursmits með þessari veiru er mjög lág, við vitum að það hafa verið örfá dæmi um slíkt en jafnvel í þeim tilvikum þar sem fólk hefur greinst í tvígang með veiruna þá hefur seinni sýkingin jafnan verið mild og áhættan griðarlega lítil þannig að það væri kannski ekki góð ráðstöfun, núna þegar við erum með mjög takmarkað magn af bóluefni.“

Fólk getur hugsanlega sýkst þrátt fyrir bólusetningu

epaselect epa08347403 Health workers collect swabs and conduct tests on motorists for coronavirus disease Coronavirus (COVID-19) positivity at the ASL Roma 3 health facility in Ostia near Rome, Italy,  07 April 2020.  EPA-EFE/ANGELO CARCONI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Eitt það erfiða við Covid-19 er að fólk getur verið smitað og smitað aðra án þess að hafa hugmynd um það sjálft.

Nú hefur töluverður hluti smita verið til kominn vegna þess að einkennalausir geta smitað. Kemur bóluefnið í veg fyrir að fólk sýkist af veirunni eða kemur það einungis í veg fyrir að það veikist?  Magnús segir að það sé stóra spurningin. „Það er ekki vitað ennþá. Við vitum að bóluefnið kemur í veg fyrir að fólk veikist og greinist með sjúkdóminn en hvort það getur smitast og borið veiruna áfram er enn óljóst. Flestir virðast þó gera ráð fyrir því að með því að bólusetja þá rjúfum við smitkeðjuna.“

Líst vel á bóluefni Pfizer og BioNtech

Magnús segir að sér lítils vel á bóluefni Pfizer og BioNtech, það hafi verið rannsakað vel, rannsóknirnar hafi verið birtar og komist í gegnum öll nálaraugu eftirlitsaðila. Eftirlitsstofnanir hafa ekki lokið við að fara yfir öll gögn um bóluefni Astra Zeneca og Moderna og þurfa að fá heildayfirsýn til að geta skorið betur úr um ágæti þeirra. 

Prófanir ekki alveg sambærilegar

Bóluefni Astra Zenica er sagt vera með töluvert minni virkni en Pfizer BioNtech. „Þau gögn sem hafa birst um virkni þess bóluefnis eru á bilinu frá 60-90% og meðaltalið einhvers staðar í kringum 70%. Þess ber þó að geta að það er varasamt að bera saman virkni úr mismunandi rannsóknum sem eru gerðar á mismunandi stöðum og mismunandi tíma. Hópurinn sem er bólusettur er heldur ekki alveg sambærilegur þannig að við getum ekki stillt þessu upp svona hlið við hlið og borið saman virknina án þess að slá þennan varnagla. Það getur verið munur á þessum hópum sem skýrir muninn á virkninni. 

Ólíkar aðferðir - sömu skilaboð til líkamans

Bóluefni Pfizer BioNtech og Moderna eru þau fyrsta sem byggja á svokallaðri mRNA tækni, en ekki hefðbundinni ferjutækni. Hver er munurinn á þessum aðferðum? „mRNA bóluefnin grundvallast á því að mRNA-erfðaefni, sem er ættað úr veirunni eða er eftirlíking af forskrift sem veiran notast við, því er komið fyrir í frumum líkamans með þessari sprautu og þetta eru þá vöðvafrumur og þær fara að framleiða þetta einstaka prótein sem veiran myndar. Ónæmissvarið er síðan sniðið að því og kemur í veg fyrir að veiran geti bundist viðtökum og fjölgað sér ef viðkomandi verður útsettur fyrir smiti.“

Hin Bóluefnin, sem er ekki jafn langt á veg komin, Astra Zeneca og Janssen, til dæmis, nota svokallaða ferju. „Það er þá veira sem ekki getur fjölgað sér en svipuðum erfðaefnisbút hefur verið komið fyrir í þessari veiruferju og hún sér um að koma erfðaefninu í líkamann og koma þá framleiðslunni á þessu tiltekna próteini af stað, ónæmissvarið kemur síðan sem viðbragð við því. Þannig að þetta eru mismunandi nálganir við að koma þessum boðskap inn í líkamann en mótefnasvarið beinist að nákvæmlega sömu sameind í báðum tilvikum,“ segir Magnús.