Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þúsundir flýja árásir á bæinn Ain Issa í Sýrlandi

28.12.2020 - 06:16
epaselect epa07908168 Turkish soldiers with armored vehicles and tanks during a military operation in Kurdish areas of northern Syria, near the Syrian border, in Akcakale, Sanliurfa, Turkey 09 October 2019. Turkey has launched an offensive targeting Kurdish forces in north-eastern Syria, days after the US withdrew troops from the area.  EPA-EFE/STR
Tyrkneskir hermenn á ferð um Kúrdahéruð Norður-Sýrlands Mynd: EPA-EFE - EPA
Minnst 9.500 íbúar sýrlenska bæjarins Ain Issa og nágrennis hafa flúið heimili sín undanfarna daga vegna harðnandi stórskotahríðar og flugskeytaárása Sýrlenska þjóðarhersins svonefnda, vopnaðarar hreyfingar sýrelenskra uppreisnarmanna sem nýtur stuðnings Tyrkja. Ain Issa lýtur aftur á móti yfirráðum hins svonefnda Lýðræðishers Sýrlands, sem er vopnuð hreyfing sýrlenskra Kúrda; andstæðinga Assads Sýrlandsforseta sem jafnframt eru þyrnir í augum Tyrkja.

Báðir aðilar saka hinn um árás

Talsmenn Lýðræðishersins greina frá því að stórskotahríð og flugskeyti þjóðarhersins hafi dunið á bænum og nærliggjandi þorpum alla síðustu viku, linnulítið frá sólsetri til hádegis alla daga.

Tyrkir neita því að árás á Ain Issa standi yfir; þvert á móti hafi sveitir Kúrda ráðist á Tyrki og bandamenn þeirra á svæðinu, og stórskotahríð síðustu daga því aðeins eðlileg varnarviðbrögð við þeim árásum.

Tyrkir og Kúrdar takast enn á í norðurhluta Sýrlands

Ain Issa er um 45 kílómetra frá landamærabænum Tel Abyad, rétt við tyrknesku landamærin, sem hersveitir Tyrkja náðu á sitt vald í innrás sinni í október í fyrra og skiluðu í hendur sýrlenskum bandamönnum sínum.

Innrásina gerðu Tyrkir eftir Bandaríkjamenn kölluðu sveitir sínar heim frá norðanverðu Sýrlandi, en þær höfðu þá barist gegn vígasveitum Íslamska ríkisins á þessum slóðum í bandalagi við hinar ýmsu sveitir sýrlenskra Kúrda. Tyrkir skilgreina þær sveitir hins vegar allar sem bandamenn hins bannaða og útlæga Verkamannaflokks Kúrda, PKK, og þar með sem óvini Tyrklands.