Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur mál Bjarna ekki sprengja ríkisstjórnina

28.12.2020 - 09:46
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur telur ekki að vera Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í fjölmennri veislu á þorláksmessu verði til að sprengja ríkisstjórnina. Málið sé hins vegar óþægilegt.

„Þetta mál, það er allavega mjög vandræðalegt fyrir ríkisstjórnina, en það er í sjálfu sér ekkert í því sem bendir til þess að þetta mál muni endilega velta henni því að forsætisráðherrann hefur lýst því yfir að hún muni sætta sig við að sitja áfram í ríkisstjórn með Bjarna Benediktssyni.“

„Hún lýsti því með því að segja að hún gerði enga kröfu um afsögn hans, það felur í sér þá traustsyfirlýsingu í hans garð að hún treysti sér til að þess að sitja áfram með honum í ríkisstjórn eftir sem áður,“ sagði Eiríkur Bergmann prófessor í stjórnmálafræði í Morgunútvarpi Rásar2 í morgun.

Eiríkur segist í raun ekki hafa átt von á öðru, en það breyti ekki þvi óróleikinn virðist meiri neðar í valdastiganum í VG.  Þá segir hann allt eins líklegt að málið eigi eftir að bitna meira á VG en Sjálfstæðisflokknum þegar upp er staðið. 

„Sjálfstæðismenn eru, að ég hygg af fordæmum að marka, þá ættu þeir að fyrirgefa svona lagað frekar en kjósendur Vinstri grænna,“ segir Eiríkur.

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Kristín Jónsdóttir - RÚV

Guðmundur Hálfdánarson sagnfræðingur segir að fram til þessa hafi ríkisstjórnin siglt tiltölulega lygnan sjó og notið trausts í aðgerðum gegn faraldrinum.  Stuðningur við ríkisstjórnina var yfir 50 prósent í könnun MMR í haust. Guðmundur segir að lítil gagnrýni hafi komið fram í samfélaginu á aðgerðir ríkisstjórnarinnar, þar til nú, en viðvera Bjarna Benediktssonar í samkvæmi þar sem sóttvarnarbrot voru framin hefur vakið upp hörð viðbrögð. Hann segir illmögulegt að spá fyrir um afleiðingar þess fyrir ríkisstjórnina.

„Við lifum í þessum stöðugu spám og skoðanakönnunum, flokkarnir rokka upp og niður. Við vitum ekki hvað gerist á næstu mánuðum, það getur ýmislegt gerst en flest bendir til þess að við komum undan næstu kosningum jafn illa undirbúin til að mynda stjórn eins og eftir seinustu kosningar. Það verði margir flokkar og enginn með afgerandi sterka stöðu,“ segir Guðmundur. Hann var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1 í morgun.