Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Takmarka ekki sölu á flugeldum strax

28.12.2020 - 11:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Breytingum á reglugerð um sölu flugelda hefur verið frestað vegna faraldursins. Því má selja flugelda í jafnmarga daga um þessi áramót og áður.

Í byrjun þessa árs skilaði starfshópur dómsmálaráðherra, heilbrigðisráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra tillögum sínum um hvernig draga megi úr neikvæðum áhrifum á lýðheilsu og loftgæði vegna mengunar af völdum flugelda. Meginniðurstaða starfshópsins var að nauðsynlegt sé að takmarka sem mest þá mengun sem veldur óæskilegum heilsufarsáhrifum hjá fólki.

Söluaðilar fái ráðrúm

Hópurinn lagði til að einungis verði heimilt að selja flugelda 30. desember, 31. desember og 1. janúar. Hingað til hefur mátt selja þá frá 28. desember til 6. janúar. Þá leggur hópurinn til að einungis verði heimilt að skjóta upp stærri flugeldum frá klukkan fjögur á gamlársdag til klukkan tvö eftir miðnætti á nýársnótt, frá fjögur til tíu á nýársdag og aftur innan sama tímaramma 6. janúar. 

Í tilkynningu á vef samráðsgáttarinnar kemur fram að umsagnarfrestur hafi runnið út 28. október, alls hafi borist 17 umsagnir og að málið hafi verið í skoðun síðan. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu sökum COVID-19-faraldursins sé þó ekki æskilegt að fækka söludögum fyrir þessi áramót, segir í tilkynningunni. Því sé útgáfu reglugerðarinnar frestað. Mikilvægt sé að söluaðilar fái ráðrúm til að skipuleggja sig með nægum fyrirvara og skoða fleiri leiðir til fjáröflunar áður en slík breyting taki gildi.