Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segist hvorki hafa brotið lög né hagað sér gáleysislega

28.12.2020 - 20:56
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist ekki geta skrifað upp á það að með því að mæta á sölusýningu á Þorláksmessukvöld hafi hann hegðað sér gáleysislega. Bjarni var samkvæmt dagbók lögreglu gripinn á Þorláksmessukvöld í samkvæmi þar sem sóttvarnalög voru brotin. Gestir voru þar talsvert ölvaðir og föðmuðust og kysstust þegar samkvæmið var leyst upp. Þar voru 40-50 manns. Nú hefur verið kallað eftir afsögn fjármálaráðherra en hann ætlar ekki að segja af sér.

„Ég brýt ekki sóttvarnalög með því að mæta á sölusýningu á Þorláksmessu,“ sagði Bjarni Benediktsson í viðtali í Kastljósi í kvöld. „Mér leið ekki illa þarna þegar við komum inn í salinn. Ég get bara ekki alveg skrifað upp á það að með því að mæta á opna sölusýningu á Þorláksmessu sé ég að haga mér gáleysislega,“ segir hann. Hann hafi þó gengist við því að hann hefði átt að taka betur eftir aðstæðum. 

Segist hafa verið óökufær en ekki staddur í samkvæmi

Aðspurður hvers vegna hann hafi tekið þá ákvörðun að mæta í samkvæmi með á fimmta tug manns á Þorláksmessu segist Bjarni skilja að það sé sú mynd sem birtist í dagbók lögreglu. Staðreynd málsins sé hins vegar sú að honum hafi ekki verið boðið í samkvæmi og hann líti ekki svo á að hann hafi verið staddur í samkvæmi, enda hafi sýningin staðið yfir allan daginn. Þau hjónin hafi verið keyrandi, konan hans hafi ekið. Hann hafi hins vegar fengið léttvín og ekki verið í ökuhæfu ástandi.

Nú gildir að vínveitingastöðum skal loka klukkan níu fyrir nýjum gestum og allir skulu vera farnir út fyrir klukkan tíu. Bjarni kom í Ásmundarsal eftir klukkan tíu. 

Áttarðu þig ekki á því að á þessum tímapunkti er búið að loka öllum vínveitingastöðum og það eiga ekki að vera fleiri saman komnir en tíu?

„Ertu viss um það? Ég las yfirlýsingu frá Ásmundarsal í dag þar sem þau segjast hafa leyfi fyrir fimmtíu þetta kvöld, eins og aðrar verslanir. Þau eru að selja listaverk,“ segir Bjarni. 

Gríman ekki uppi allan tímann

Þú kemur inn á stað þar sem er fjöldi fólks og ert þar í fjörutíu mínútur, um það bil, miðað við að konan sem hringdi á lögregluna sagðist hafa séð þig í tíu mínútur áður en hún hringdi á lögregluna og lögreglan kom hálftíma síðar. Áttarðu þig ekki á því að þarna var samkvæmi sem þú áttir ekki að vera í?

„Þegar ég mætti á frumsýninguna var allt í 100 prósent lagi og þarna hefur staðið yfir sýning í margar vikur án þess að mér sé kunnugt um að nokkru sinni hafi verið gerðar athugasemdir. Þegar ég ákveð að koma þarna við á leiðinni heim í Garðabæinn, þá er það eðlilegasti hlutur í heimi fyrir mér og enginn ásetningur í því að fara að fremja brot á sóttvarnareglum. Og það var ekkert fjölmenni þarna í húsinu, hvorki í salnum uppi eða annars staðar svo ég yrði var við, þegar ég kem á staðinn. Og ég mætti með mína grímu á andlitinu, sem þó var ekki uppi allan tímann sem ég var þarna. Þannig að það er ekkert sem sérstaklega vekur óþægilega tilfinningu hjá mér þegar ég mæti á svæðið. En eins og ég sagði í minni yfirlýsingu þá erum við sammála um að við höfum verið þarna í um það bil korter, ég bara stend við það, það er okkar upplifun og að á þeim tíma hafi fjölgað í salnum.“

Mistök að átta sig ekki á mannfjöldanum

Bjarni segist hafa gert mistök með því að átta sig ekki á því að það væru of margir í salnum.  Aðspurður hvort hann, sem fjármálaráðherra í ríkisstjórn sem hefur sett íþyngjandi reglur um hegðun almennings og starfsemi fyrirtækja í næstum ár, hafi ekki áttað sig á því að það yrði einhver fjöldi fólks á staðnum og sennilega ekki ráðlegt að fara, segir hann að það hafi verið rúmt og gott að standa í salnum. Hann hafi verið á tveggja manna tali og ekki tekið á sig að hafa áhyggjur af fjöldanum. 

Formenn hinna stjórnarflokkanna sæta nú gagnrýni fyrir að verja þig. Finnst þér þú ekki skulda þeim, sérstaklega í ljósi aðstæðna, að lenda ekki í svona atviki?

„Ég hef mikinn skilning á þvi að það sé, ekki síst vegna aðstæðna í samfélaginu, óskaplega lítil þolinmæði fyrir uppákomum af þessu tagi. Yfir höfuð að lögreglan þurfi að skipta sér af mannamótum. Ég hef fullan skilning á því. Ég held að við séum líka öll sammála um það í ríkisstjórninni að við viljum beina kröftum okkar að uppbyggingastarfinu.“

En dæmin sanna það erlendis að þegar ráðamenn brjóta sóttvarnalög þá fjölgar sóttvarnalagabrotum. 

„Já, það er auðvitað ekki gott. Og ég vonast til þess að þetta atvik verði ekki til þess. Og ég held að með því að taka rétt á málum og koma réttum skilaboðum út þá getum við áfram varið þá góðu samstöðu sem hefur verið í samfélaginu. Og ég hef ástæðu til að vera umhugað um það af persónulegum ástæðum, alveg eins og hver annar Íslendingur. Ég á mína foreldra og tengdaforeldra og líf mitt hefur snúist um að berjast við þessa veiru undanfarna níu mánuði. Og ég hef helgað líf mitt að gera í raun ekkert annað,“ segir Bjarni. 

Auðvelda leiðin væri að stíga til hliðar

Aðspurður hvaða þýðingu það hafi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í báráttunni við COVID-19 að tveir ráðherrar hafi þurft að gangast við því að hafa ekki fylgt sóttvarnatilmælum eða vera á stað þar sem sóttvarnalög eru brotin, og tveir aðrir staðið í grímulausum áróðri gegn sóttvarnastefnu stjórnvalda, segir Bjarni að í ríkisstjórninni hafi verið full samstaða um sóttvarnaaðgerðir. 

„Ástæðan fyrir því að stjórnarflokkarnir standa saman er að við erum samstíga og við erum að ná árangri í því sem við erum að fást við, sem er mesta efnahagslægð sem Ísland hefur farið í gegnum í hundrað ár. Og menn spyrja hvort það sé ekki bara best að stíga til hliðar? Ég segi við því, það er auðvelda leiðin út. Það er náttúrulega miklu þægilegra heldur en að vakna á aðfangadag með fréttamenn á dyrabjöllunni,“ segir hann.

Bjarni segist líta svo á að hann hafi lofað þjóðinni að standa í lappirnar og vera til staðar og berjast fyrir baráttumálum flokksins og þjóðarinnar, í blíðu og stríðu. Það þýði að hann gangi ekki frá borði þótt móti blási. „Ég fer ekki vegna þess að ég vilji það ekki mín vegna, heldur geri ég það ekki þrátt fyrir að það sé erfitt að halda áfram að berjast,“ segir hann. 

Kvíðir ekki uppgjörinu

Heldurðu að grasrótin í hinum stjórnarflokkunum hafi áhuga á því, eftir höggið sem þær taka á sig núna fyrir að styðja þig, að starfa með þér að ári?

„Ef menn þykjast hafa erindi í stjórnmál og ætla að fara inn á þann vettvang þá skiptir afskaplega miklu máli að láta ekki velta sér um koll þegar maður fær mótvind. Og ef þessir flokkar gera eins og mér sýnist þeir ætla að gera, að horfa yfir sviðið og skoða kjörtímabilið í heild og til hvers þessi ríkisstjórn var mynduð og hvaða dag við erum að upplifa í dag, hvað bíður okkar. Það er hækkandi sól og bóluefni nýkomið. Ég kvíði því ekki hvernig uppgjör fyrir þessa ríkisstjórn verður þegar upp er staðið,“ segir Bjarni.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
einar's picture
Einar Þorsteinsson
Fréttastofa RÚV