Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lægri komugjöld og ódýrara leghálsstrok

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Um áramótin tekur heilsugæslan við skimunum fyrir krabbameini í leghálsi og við það lækkar gjald fyrir leghálsstrok úr 4.818 krónum í 500 krónur. Á sama tíma taka Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri við framkvæmd skimana fyrir krabbameini í brjóstum. Gjald fyrir brjóstaskimun hækkar um 2,7 prósent, en gjaldið verður fellt inn í afsláttarkerfi sjúkratrygginga.

Almenn komugjöld á heilsugæslustöðvum lækka úr 700 krónum í 500 krónur um áramótin. Þá fellur niður sérstakt komugjald þeirra sem leita á aðra heilsugæslustöð en þeir eru skráðir hjá. Áætlaður kostnaður vegna þessara breytinga á gjaldskrá heilsugæslustöðva er um 135 milljónir króna. 

Fleiri breytingar hjá heilsugæslunni

Í nýrri tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að einnig standi til að koma á fót heilsueflandi námskeiðum fyrir konur í yfirvigt og námskeiðum til að bæta tilfinningalega líðan á meðgöngu. Þá muni heilsugæslan gefa út gjaldfrjáls vottorð fyrir starfshæfnismat sem er forsenda fyrir umsókn um starfsendurhæfingu hjá VIRK.

Ekki verður lengur krafist þess að börn sem fara í rannsókn eftir komu á slysadeild eða á bráðamótttöku sjúkrahúsa hafi tilvísun frá heimilis- eða heilsugæslulækni og gjöld fyrir þessar komur falla niður. Það gildir einnig um börn sem fara til sérfræðings á göngudeild eða dagdeild sjúkrahúsa í beinu framhaldi af komu á slysadeild eða bráðamóttöku.

Gjöld fyrir opinbera heilbrigðisþjónustu hækka um 2,7 prósent um áramótin, í samræmi við verðbólguspá samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá 1. október síðastliðnum.