Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fundu tólf nýjar tegundir lífvera á botni Atlantshafs

28.12.2020 - 23:11
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Vísindamenn hafa fundið tólf nýjar tegundir lífvera á botni Atlantshafsins og merki um 35 tegundir á svæðum þar sem þær hafa ekki haldið sig áður. Fræðimenn frá 13 löndum hafa í fimm ár unnið að umfangsmikilli sjávarlíffræðirannsókn með það fyrir augum að varpa ljósi á áhrif loftslagsbreytinga á vistkerfi neðansjávar.

Vísindamennirnir segja loftslagsbreytingar nú þegar ógna tilvist nýuppgötvuðu lífveranna og að súrnun sjávar hafi eyðandi áhrif á kóralrifin þar sem lífverurnar halda sig. Ekki sé þó of seint að bregðast við. Breska ríkisútvarpið fjallaði um þetta í dag. Nýjar rannsóknir hafa einnig varpað ljósi á neðansjávarhveri þar sem þrífast flókin vistkerfi djúpt á sjávarbotni við Azoreyjar.

Alltaf eitthvað nýtt á sjávarbotni

Breska ríkisútvarpið hefur eftir George Wolff, prófessor við háskólann í Liverpool í Englandi að vísindamenn hafi betri mynd af Tunglinu og Mars heldur en af sjávarbotni. „Í hvert sinn sem þú ferð á sjávarbotn finnurðu eitthvað nýtt, ekki bara tegundir heldur heilu vistkerfin,“ segir hann. 

Þá er haft eftir Murray Roberts, prófessor við Edinborgarháskóla sem leiðir rannsóknina, að hún hafi varpað ljósi á sérstök svæði í sjónum sem áður voru óþekkt og að vísindamennirnir hafi komist að því hvað þar eigi sér stað. „Við fundum heilu vistkerfin af svömpum og kóralrifum sem mynda borgir á sjávarbotni. Þessir staðir styðja við lífið í sjónum því mikilvægir fiskar hrygna þar. Ef svæðin eyðileggjast af mannavöldum hafa þessir fiskar engan stað til að hrygna og þannig myndi mikilvægur hlekkur í vistkerfinu bregðast,“ segir hann. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV