Jarðskjálfti, 5,2 að stærð, varð í Króatíu í morgun en upptök hans eru rakin fimmtíu kílómetra suðaustur af höfuðborginni Zagreb. Hann fannst vel í borginni, en hann reið yfir rétt fyrir klukkan hálf sex að staðartíma.
Eftirskjálfti, 4,9 að stærð, fannst einnig vel. Í Pokupsko, héraðinu þar sem skjálftinn átti upptök sín, þusti fólk út úr húsum sínum. Engar fregnir hafa borist af manntjóni en sjáanlegt tjón er á mannvirkjum á svæðinu.
Í mars reið annar skjálfti yfir í grennd við Zagreb sem var 5,3 að stærð. Þá lést einn og tuttugu og sjö slösuðust.