Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Eykur óöryggi í hættuástandi að hafa ekki flóttaleið

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir - RÚV
Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi segir að vonir standi til þess að hægt verði að aflétta rýmingu á Seyðisfirði að einhverju leyti í dag. Vegna veðurs hefst hreinsunarstarf á rústunum eftir stærstu skriðuna í fyrsta lagi á morgun. Varaformaður björgunarsveitarinnar segir það bæta gráu ofan á svart að Fjarðarheiðin skuli vera lokuð vegna veðurs.

Gæti verið að fleiri Seyðfirðingar fái að fara heim 

„Veðurstofan er enn að afla gagna, það hefur gengið aðeins erfiðlega að ná í þau gögn vegna þess að Fjarðarheiðin hefur verið lokuð. Vonandi næst það eftir hádegi fljótlega og þá verða tíðindi að afléttingu rýminga að einhverju leyti í það minnsta. En aðeins óljóst ennþá á meðan við höfum ekki gögnin,“ segir Kristján Ólafur.

„Nógu mikil vanlíðan“ eins og er

Um tvær vikur eru frá því að fyrstu íbúarnir þurftu að yfirgefa heimili sín vegna skriðuhættu. Í gær var grenjandi rigning á Seyðisfirði og Fjarðarheiði milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða lokuð part úr degi vegna veðurs, og Fjarðarheiðin var líka ófær fyrir hádegi í dag. 

Davíð Kristinsson varaformaður björgunarsveitarinnar Ísólfs segir það hafa vakið óhug hjá mörgum að vera innlyksa í bænum á meðan hættustig vegna skriðuhættu sé í gildi og engin flóttaleið til staðar landleiðina. „Það er nógu mikil vanlíðan í bænum eins og er. Þetta óöryggi ofan á það er mörgum gríðarega erfitt,“ segir hann.

En hvað er til ráða, hefði verið betra að hafa varðskipið áfram á Seyðisfirði? „Já svo að það sé flóttaleið út úr bænum, það hefði verið gott að hafa varðskipið á meðan heiðin er óörugg,“ segir Davíð.

„Auðvitað er erfitt að þurfa að búa við þetta ofan í annað sem þau eru að glíma við,“ sagði Kristján Ólafur.

40 snæddu jólamatinn í Herðubreið

Ekki hefur verið talið öruggt að fara mikið inn á hættusvæðið. Kristján segir að vegna veðurs hefjist hreinsunarstarf að nýju í fyrsta lagi á morgun og mögulega ekki af fullum krafi fyrr en eftir áramót.

Um 190 Seyðfirðingar búa á hættusvæðinu og gátu því ekki verið heima hjá sér um jólin. Í félagsheimilinu Herðubreið er þjónustumiðstöð Almannavarna. Þar snæddu um 40 manns kvöldverð á aðfangadag og hátt í sjötíu litu við á jóladag samkvæmt upplýsingum þaðan. 

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Þórisson - RÚV