Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Elleman styður Landsdómsmál yfir Støjberg

Inger Stöjberg. - Mynd: EPA / MTI
Jakob Elleman-Jensen, formaður stjórnarandstöðuflokksins Venstre í Danmörku, hefur lýst yfir að hann styðji að Landsdómur fjalli um mál Inger Støjberg, varaformanns flokksins, komist óvilhallir lögmenn að því að grundvöllur sé fyrir ákæru.

Rannsóknarnefnd sagði fyrirmæli ólögleg

Rannsóknarnefnd danska þingsins hefur skilað áfangaskýrslu í máli Inger Støjberg, fyrrverandi ráðherra útlendinga og innflytjenda. Niðurstaða nefndarinnar er að Støjberg hafi gefið út ólögleg fyrirmæli er hún fyrirskipaði að láta aðskilja gifta hælisleitendur yngri en átján ára.

Óvilhallir lögmenn eiga að úrskurða um ákæru

Þingið fól tveimur óvilhöllum lögmönnum að úrskurða hvort grundvöllur væri fyrir ákæru gegn Støjberg fyrir Landsdómi, sem fjallar um meint lagabrot ráðherra. Það sætir nokkrum tíðindum að Jakob Elleman-Jensen skuli lýsa stuðningi við ákæru á hendur varaformanni sínum. Hann rökstyður afstöðu sína með því að benda á að flokkurinn geti ekki setið undir grunsemdum um lagabrot varaformannsins og því verði að hreinsa hana með málaferlum.

Støjberg undrandi á afstöðu formannsins

Inger Støjberg birti yfirlýsingu á Facebook þar sem hún lýsti undrun á orðum Elleman-Jensens og að hún væri algerlega ósammála. Støjberg hefur alla tíð neitað að hafa brotið lög og sagst hafa viljað vernda ungar stúlkur fyrir þvinguðu hjónabandi. 

Klofningur í Venstre

Fréttaskýrendur í Danmörku segja að klofningur sé í Venstre, sem er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Þrátt fyrir nafnið er Venstre hægriflokkur og hefur oftar en ekki farið með foryrstu þegar hægriflokkar hafa verið í ríkisstjórn í Danmörku. Síðast er Lars Løkke Rasmussen var forsætisráðherra frá 2015 til 2019. Henrik Qvortrup, ritstjóri stjórnmálaumflöllunar danska blaðsins BT, skrifar að mál Inger Støjberg geti hreinlega orðið til þess að flokkurinn klofni.