Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Bóluefnið komið tíu mánuðum eftir fyrsta smit

Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun / RÚV
Fyrstu skammtarnir af bóluefni við COVID-19 komu til landsins í morgun, nákvæmlega tíu mánuðum eftir að tilkynnt var um fyrsta kórónuveirutilfellið hérlendis. Framlínufólk í faraldrinum fagnaði bóluefninu í vörumóttöku. Byrjað verður að bólusetja í fyrramálið. 

Þotan með skömmtunum tíu þúsund lenti í myrkri um fimmtán mínútur yfir níu í morgun á Keflavíkurflugvelli. Kassarnir tveir með bóluefninu voru fluttir í flugvallarsendibíl og þeim ekið í hús Airport Associates á vellinum. Og þar voru þeir setti beint í flutningabíl að viðstöddum sérsveitarmönnum ríkislögreglustjóra. Bóluefnið verður að geyma við 80 stiga frost og því mikilvægt að flutningarnar gangi hratt og fumlaust. Flutningabíllinn var snöggur að aka í Garðabæ í húsnæði Distica sem dreifir bóluefninu en það dugar fyrir fimm þúsund manns.

Líklega hefur sjaldan verið svo mikil viðhöfn við vörumóttöku eins og í morgun. 

„Dagurinn í dag er dagur góðra frétta og sennilega betri frétta en við höfum lengi heyrt,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í ávarpi sínu. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að í dag væri mikill gleðidagur í baráttunni við COVID-19: 

„Það er trú mín að í dag muni hefjast nýr kafli í baráttunni við COVID-19. Og með komu bóluefnisins tel ég að það hilli loksins í það að við getum farið að snúa baráttunni okkur í hag.“

„Ég held að það hafi engan órað fyrir því að þegar að fyrsta smitið greindist hér í lok febrúar að tíu mánuðum síðar værum við á þessum gleðidegi þannig að ég held að við getum aldeilis fagnað því að þó að árið sé enn þá 2020, þetta erfiða ár, að þá getum við byrjað að bólusetja,“ segir Svandís. 

Hver verður bólusettur fyrstur?

„Það kemur í ljós á morgun. En það verður fólk sem er í framlínu heilbrigðisþjónustunnar og íbúar á hjúkrunarheimilum.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Svandís Svavarsdóttir.