Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áttatíu nýjar íbúðir fyrir þrjá milljarða

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Reisa á um áttatíu íbúðir á Akranesi fyrir almennan leigumarkað; og fyrir fatlað fólk, öryrkja og aldraða. Þetta er þriggja milljarða uppbygging sem á meðal annars að koma til móts við skort á leiguhúsnæði á Skaganum.

Það eru Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, leigufélagið Bríet og félagsmálaráðuneytið sem standa að verkefninu ásamt Akraneskaupstað. Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri, segir þetta um áttatíu íbúðir upp á um þrjá milljarða. Þar af eru fimmtán íbúðir fyrir fatlað fólk. Uppbyggingin fer af stað á næstu mánuðum og misserum. 

„Hugsunin er að þetta síðan í leiðinni stuðli að atvinnusköpun hér í landinu á meðan efnahagssamdráttur er,“ segir hann. 

Akraneskaupstaður vinnur rafræna húsnæðisáætlun

Meðfram húsnæðiuppbyggingu á að fara í tilraunaverkefni í stafrænum lausnum. Sævar segir það fela í sér að sveitarfélagið vinni rafræna húsnæðisáætlun og þrói rafrænt ferli við byggingarumsóknir. 

„Sömuleiðis erum við að fara í útfærslu á því hvernig íbúar geti gert breytingar án þess að fara í flókna útfærslu deiliskipulags.“

Koma til móts við skort á leiguhúsnæði

Þetta sé einnig gert til þess að bregðast við skorti á leiguhúsnæði. Leigufélagið Heimavellir seldi á einu ári um sextíu íbúðir á Akranesi sem fóru þar með af leigumarkaði, síðast 26 íbúðir í janúar á þessu ári. 

„Hér er í raun markaðurinn til staðar en hefur orðið ákveðinn brestur. Íbúar sem vilja leigja sér húsnæði hafa ekki haft úrræði og þá erum við að bregðast við því,“ segir Sævar. 

Þetta er einungis hluti þeirra bygginga sem á að reisa á Akranesi en á næstu árum verða byggðar þar á um sjötta hundrað íbúða með tilheyrandi fólksfjölgun.

Sævar segir sveitarfélagið vænta þess að atvinnuþróun verði í takt við íbúafjölgun, meðal annars með þeim verkefnum sem eru á borði Þórunarfélagsins á Grundartanga og nýstofnaðs Þróunarfélags á Breið.