Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vonar að verslanir verði sveigjanlegar með skilafresti

27.12.2020 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV
Dagarnir milli jóla og nýárs eru oft nýttir til þess að skila og skipta jólagjöfum. Formaður Neytendasamtakanna vonar að verslanir verði sveigjanlegar svo viðskiptavinir þurfi ekki að hópast meira saman en þörf er á.

Í dag er fyrsti almenni opnunardagur margra verslana frá því fyrir jól. Frestur til að skila eða skipta jólagjöfum er oft bundinn við áramót eða fyrstu daga nýs árs, en í aðdraganda jóla hvöttu Neytendasamtökin verslanir til þess að lengja skilafrestinn til þess að forðast hópamyndanir. 

„Núna eru sérstakar aðstæður, bæði í þjóðfélaginu en líka að það eru óvenjulega fáir dagar á milli jóla og nýárs. Það er bara þrír og hálfur virkur dagur og þess vegna er mikilvægt að fólk hafi rúman tíma til þess að skila vörum sem þarf að skila,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

Honum er ekki kunnugt um hvort margar verslanir hafi ákveðið að lengja skilafrestinn, en vonast til þess að sveigjanleikinn verði í fyrirrúmi. 

Breki Karlsson
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

„Það gilda engin lög eða engar reglur um skilarétt á ógallaðri vöru. Þannig að verslunum er í sjálfsvald sett hvernig þær haga skilarétti á ógallaðri vöru sem keypt er á staðnum,“ segir Breki.

Netverslun jókst töluvert fyrir þessi jól en þeim vörum er að sjálfsögðu einnig hægt að skila, og oft er það ekki bundið við áramót.

„Skilaréttur á vörum sem keyptar eru á netinu er rýmri heldur en á vörum sem keyptar eru á staðnum. Sé vara keypt á netinu þá er alltaf 14 daga skilaréttur, í rauninni sama hvað.“