Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Spá því að Kína verði mesta efnahagsveldi heims 2028

27.12.2020 - 07:30
epa08225764 People wearing protective face masks work in the Galanz factory in Foshan, China, 18 February 2020. Galanz is one of the leading companies in the home appliances industry. Over the past decade Galanz has transformed from traditional manufacturing to Galanz+ smart home digital technology enterprise. According to media reports, some of China's factories are resuming operations after shutting down due to Covid-19. Despite reopening full production remains difficult due to staffing issues. Airbus, General Motors, Toyota, Foxconn and many others started production following new rules issued by local authorities.  EPA-EFE/ALEX PLAVEVSKI
 Mynd: epa
Kínverska hagkerfið verður orðið stærra en það bandaríska og Kína þar með stærsta efnahagsveldi heims árið 2028 ef svo fer fram sem horfir, fimm árum fyrr en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir. Þetta er mat bresku efnahagsrannsókna- og ráðgjafarmiðstöðvarinnar CEBR. Þetta skýrist fyrst og fremst af áhrifum COVID-19 heimsfaraldursins á efnahagskerfi heimsins og ólíkri getu stórveldanna tveggja til að takast á við kreppuna sem farsóttin hefur valdið.

Í ársskýrslu CEBR segir að samkeppni Bandaríkjanna og Kína um markaði og völd hafi verið ráðandi afl á sviði alþjóðaviðskipta og efnahagsmála um áratuga skeið. „COVID-19 heimsfaraldurinn og efnahagsleg áhrif hans hafa greinilega snúið gæfuhjólinu Kína í vil í þessari glímu," segir í skýrslunni.

Skjót og hörð viðbrögð Kínverja ríða baggamuninn

Eru tímanlegar og harðar aðgerðir Kínverja gegn útbreiðslu farsóttarinnar, samhliða slælegum viðbrögðum og efnahagsþrengingum vestanhafs, sagðar auka enn á muninn á fyrirséðum hagvexti stórveldanna, Kína í hag.

Því er spáð að meðalhagvöxtur í Kína verði 5,7 prósent á ári næstu fimm árin og 4,5 prósent á árunum 2026 -2030. Þótt útlit sé fyrir talsverðan efnahagsbata í Bandaríkjunum á næsta ári, segir í skýrslunni, verður hagvöxtur þar varla nema 1,9 prósent á ári frá 2022 - 2024, og 1,6 prósent eftir það.

Japan áfram í þriðja sæti en Indland á stöðugri uppleið

Japan verður áfram þriðja stærsta hagkerfi heims samkvæmt sérfræðingum CEBR, en Indland mun að líkindum taka fram úr því á fjórða áratug þessarar aldar, klifra úr sjötta sætinu í það þriðja. Við það lækkar Þýskaland úr fjórða sætinu í það fimmta, og Bretland úr fimmta sætinu í það sjötta, gangi þessar spár eftir. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV