Sorgin er búin til úr ást

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn

Sorgin er búin til úr ást

27.12.2020 - 09:00

Höfundar

„Sorg er í rauninni fallegasta tilfinningin af því að hún er búin til úr ást. Það er ekki hægt að syrgja nema að hafa elskað og ég er ofsalega þakklát fyrir það,“ segir Íris Birgisdóttir. Hún missti manninn sinn, Kolbein Einarsson, í maí 2019. Íris vinnur nú að því að gera upp bæinn Framnes undir Búlandstindi við Berufjörð sem þau Kolbeinn höfðu nýlega keypt þegar Kolbeinn greindist með krabbamein.

„Framnes er sem sagt byggt upp af langafa mínum og ömmu. Þau fluttu hingað 1937 með börnin sín fjögur og ólu þau upp hér,“ segir Íris. „Ég sá þetta fyrir mér að samhliða því að endurbyggja húsið þá myndi ég byggja sjálfa mig upp. Og það er engin lygi því það er oft alveg ótrúlega gott að fá útrás með hamar eða haka eða hvað sem það er þegar maður hefur þannig orku og suma daga á maður ekkert inni en þá getur maður kannski sópað.“

Býr til Búlandstind undir Búlandstindi

Einn daginn, ætla þær Íris og dóttir þeirra Kolbeins, Anna, að flytja á Framnes undir Búlandstindi. Þar sem er æðarvarp og marglitir steinar við hvert fótmál, en líka minningar og ýmiss konar fræ. „Mig langaði til að færa Búlandstind nær henni, þar sem við búum sem sagt ekki í íbúðarhúsinu okkar núna, við erum að endurbyggja það, þannig að mér datt í hug að ég gæti búið til leikfang handa henni úr Búlandstindinum. Af því pabbi hennar var sjómaður þá hef ég búið til báta og litla veiðistöng og fiska og ýmislegt sem mér hefur dottið í hug.“

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV/Landinn
Að breyta fjalli

Ekkert er óumbreytanlegt

Í byrjun árs fékk Íris styrk til að þróa áfram leikfangið sem byggist á Búlandstindi og fékk nafnið Að breyta fjalli eftir samnefndri bók eftir Stefán Jónsson. „Ég hafði samband við afkomendur Stefáns og fékk vilyrði fyrir því að nota nafnið. Og ég fékk svo falleg skilaboð til baka að það væri svo fallegt að lauma því að ungviðinu að ekkert sé í sjálfu sér óumbreytanlegt,“ segir hún.

Sorgin í kosmísku samhengi

Smám saman tekur Framnes breytingum sem færir bæinn nær því að verða heimili Írisar og Önnu - draumnum sem þær deildu með Kolbeini. „Að syrgja á svona stað setur þetta í eitthvað svo kosmískt samhengi allt saman. Ég er ekki sú eina sem hefur upplifað svona harm, langamma mín missir langafa snemma, hún býr hérna stærstan hluta ævi sinnar án hans með börnunum sínum,“ segir Íris.

„Mér finnst fallegt hlutverk núna, af því að ég er í þessari stöðu, að finna þessu farveg öllu saman. Bera virðingu fyrir því sem á undan hefur gengið og fólkinu mínu, honum og sögunni okkar, og líka sögunni okkar Önnu og framtíðinni sem tekur núna við af því að þetta fór svona,“ segir Íris.

Landinn hittir Írisi og Önnu Kolbeinsdóttur í jólaþætti Landans í kvöld kl. 19.40.