Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Segir kirkju sem fangar tíðarandann dæmda til mistakast

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundssson - RÚV
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, fer hörðum orðum um stefnu kirkjunnar á Íslandi í grein í tímaritinu Spectator í dag. Kirkjan sé dæmd til að mistakast, reyni hún að fanga tíðarandann. Kirkjan sé með rangar áherslur og sé allt of oft þögul í málum sem skipti miklu máli.

Breska tímaritið fjallar um stjórnmál, menningarmál og fleiri málefni líðandi stundar.

„Stundum hefur þetta falið í sér að stefnumál eru sett á dagskrá sem keppa við róttækustu arma sósíalískra og grænna hreyfinga,“ skrifar Sigmundur Davíð.

Hann nefnir sem dæmi um rangar áherslur þegar kirkjan fagnaði fjölbreytileikanum í auglýsingaherferð þar sem teikning af Jesú með brjóst og skegg og andlitsfarða var ætlað að undirstrika hann og hampar biskupi fyrir að hafa stöðvað herferðina.

Hann gagnrýnir einnig að í síðustu nýárs messu hafi verið oftar minnst á Gretu Thunberg umhverfisverndarsinna, alls níu sinnum, en Jesú átta sinnum. Árið þar á undan hafi verið minnst á Jesú og Gretu jafn oft, tvisvar.

Sjálfur segist hann dyggur stuðningsmaður kirkjunnar en mögulega sé hnignun í aðsókn í kirkjuna óumflýjanleg. Hann segir að kirkjan eigi að byrja á því að hætta að afsaka sjálfa sig og meta sig að verðleikum og ekki reyna að bjarga heiminum í stað þess að breiða út kristinn boðskap.