Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Japanar loka landamærunum

27.12.2020 - 02:38
epa08903892 Japan's Prime Minister Suga Yoshihide delivers a speech during a press conference about the ongoing Covid-19 outbreak in Tokyo, Japan, 25 December 2020.  EPA-EFE/Nicolas Datiche / POOL
Suga Yoshihide, forsætisráðherra Japans. Stjórnvöld í Japan tilkynntu á laugardag að landamærum landsins yrði lokað á mánudag og þau ekki opnuð aftur fyrr en í byrjun febrúar. Mynd: EPA-EFE - sipa.com POOL
Stjórnvöld í Japan tilkynntu í gær að landamærum landsins yrði lokað um hríð fyrir öllum erlendum ríkisborgurum öðrum en þeim sem þegar búa í landinu og eru með gilt landvistarleyfi. Er þetta gert til að hindra útbreiðslu hins nýja afbrigðis kórónaveirunnar, sem fyrst greindist í Bretlandi í september og talið er smitast mun hraðar en önnur afbrigði. Bannið gengur í gildi á mánudag og stendur út janúar, segir í tilkynningu stjórnvalda.

Neikvætt COVID-próf og sóttkví skilyrði fyrir endurkomu heimafólks

Japanskir ríkisborgarar og erlendir ríkisborgarar með gilt landvistarleyfi, sem staddir eru erlendis, fá að snúa aftur til Japans, en verða að framvísa neikvæðri niðurstöðu úr COVID-skimun, sem ekki má vera meira en 72 tíma gömul þegar viðkomandi leggur upp í Japansferðina. Jafnframt verður viðkomandi að vera í sóttkví í tvær vikur eftir komuna til Japans.

Sjö greinst með nýja afbrigðið í Japan

Heilbrigðisyfirvöld í Japan greindu frá því í dag að alls hefðu sjö manns greinst með hið nýja, breska afbrigði kórónaveirunnar; fimm á jóladag og tvö í dag. Fimmenningarnir sem greindust á jóladag voru í sóttkví á flugvallarhóteli þegar niðurstaða greiningar barst, en hin smitin greindust í mönnum sem voru utan sóttkvíar. Annar þeirra er flugmaður, sem mun vera nýkominn frá Bretlandi.