Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Breskir sjómenn ósáttir við Brexit

27.12.2020 - 09:31
epa08899124 (FILE) - Belgian fishing trawler Alles Wisselt seen fishing in the English Channel, off the south coast of Newhaven, East Sussex, Britain, 10 November 2020 (reissued 22 December 2020). A fisheries agreement is one of the crucial points in negotiations for a trade agreement after the UK has left the European Union.  EPA-EFE/VICKIE FLORES
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bresk stjórnvöld hafa gefið út útgöngusamning landsins úr Evrópusambandinu. Samtök breskra sjómanna eru ekki sátt við niðurstöðu Brexit-samningaviðræðnanna.

Hér má sjá Brexit-samkomulagið í heild sinni á vef bresku ríkisstjórnarinnar en það er 1466 blaðsíður að lengd og skiptist í sjö hluta. Það felur meðal annars í sér tollfrjáls viðskipti milli ESB og Bretlands með flestar vörur og þjónustu og grundvöllur skapaður fyrir samstarf á sviði löggæslu, orku og samnýtingu upplýsinga.

Samningurinn tekur gildi með fyrirvörum 1. janúar og varðar viðskipti upp á um 660 milljarða punda. Hann er stærsti tvíhliða viðskiptasamningur sem bæði Bretland og ESB hafa undirritað. Á jóladag fengu sendiherrar hinna 27 Evrópusambandsríkja í Brussel kynningu á innihaldi samningsins og eru byrjaðir að grandskoða hann. Evrópuþingið greiðir atkvæði um hann snemma á næsta ári.

Deildar meiningar um samninginn í Bretlandi

Samningurinn var tilkynntur á aðfangadag en Bretland og ESB höfðu frest til áramóta til að ljúka honum, annars gengju Bretar úr sambandinu án samnings. Breskir kjósendur greiddu atkvæði með útgöngu úr sambandinu í júní 2016.

Boris Johnson forsætisráðherra lofaði fyrir bresku þingkosningarnar í fyrra að ljúka samkomulagi við ESB með hagstæðum hætti fyrir þjóð sína. David Frost, aðalsamningamaður bresku ríkisstjórnarinnar, segir samninginn „marka nýtt upphaf fyrir þjóðina“ og gera Bretum kleift að stjórna sér algjörlega sjálfir. Þetta er í takt við orð Johnson á aðfangadag sem sagði samninginn tryggja Bretum fullkomið fullveldi.

Á lokametrum samningaviðræðna voru fiskveiðar helsta deilumálið, þrátt fyrir að vera einungis lítill hluti efnahagslífs Breta og Evrópusambandsins. Samtök breskra sjómanna segja hagsmunum sínum verið fórnað með samkomulaginu og það „ósigur“ fyrir félagsmenn sína. Þessu hafnar háttsettur meðlimur bresku samninganefndarinnar í samtali við Financial Times. Hann segir samkomulagið leiða til þess að Bretar fái loks fulla stjórn á fiskveiðum innan lögsögu sinnar.

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, tók sterkt til orða á aðfangadag þegar greint var frá samningnum. Hún sagði það mikinn ósigur fyrir Skotland og tímabært væri að Skotland yrði sjálfstætt ríki og hluti af Evrópu.