Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Boris Johnson viðurkennir vankanta Brexit

27.12.2020 - 18:30
epa08902827 A handout photo made available by No10 Downing Street showing British Prime Minister Boris Johnson during press conference after a Brexit deal, from the Cabinet room, in London, Britain, 24 December 2020. A historic deal on the UK's future trading and security relationship with the European Union has been agreed upon 24 December 2020, a week before the end of the Brexit transition period.  EPA-EFE/Pippa Fowles / No10 Downing Street HANDOUT The Image can not be altered in any form. HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - No10 Downing Street
Breski forsætisráðherrann Boris Johnson segir að útgöngusamningur Breta við Evrópusambandið uppfylli ekki þær væntingar sem hann hafði til hans um fjármálaþjónustu. Er samningurinn var kynntur á aðfangadag sagði Johnson stjórn sína hafa staðið við öll loforð varðandi hann.

Í viðtali við Sunday Telegraph sagði Johnson að samningurinn „gengi ekki jafn langt og við vildum“ er varðar fjármálaþjónustu sem er stór hluti af bresku efnahagslífi. Engu að síður sé með samningnum gerður grundvöllur fyrir nýjum vinskap og auknu samstarfi milli Breta og Evrópusambandsins. Hann segir ríkið muni nýta sér það frelsi sem fylgir því að ganga úr sambandinu til að auka vægi annarra greina í bresku atvinnulífi.

Þó svo að Bretar og ESB hafi náð saman þarf breska þingið og Evrópuþingið að samþykkja samninginn. Gert er ráð fyrir að slíkt samþykki fáist en hve langan tíma það tekur er óvíst.

Enn hafa engar upplýsingar verið gefnar um áhrif samkomulagsins, sem náðist á aðfangadag eftir langar og strangar samningaviðræður, á fjármálaþjónustufyrirtæki og banka í Bretlandi. Mörgum spurningum, einkum um aðgang fyrirtækja að evrópskum fjármálamörkuðum, er enn ósvarað.

Evrópusambandið hefur samkvæmt Financial Times gert Bretum ljóst að þeir þurfi að bíða fram yfir áramót til að fá að vita hve mikinn aðgang fjármálafyrirtæki fá að mörkuðum sambandsins. Það veltur á því hve ólík bresk fjármálalöggjöf verður evrópskri, samkvæmt upplýsingum sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf út á aðfangadag.

Eins og staðan er nú er útlit fyrir að Bretar þurfi að sætta sig við flóknari reglur og takmarkaðri aðgang að fjármálakerfi Evrópu en þeir hafa til dæmis að fjármálamiðstöðvum á borð við New York og Singapúr.