Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Jafnlaunavottun eykur skrifræði og er jafnvel tálsýn

26.12.2020 - 15:19
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Jafnlaunavottun hefur í för með sér aukið skrifræði og kerfisvæðingu og er jafnvel tálsýn. Þetta eru helstu niðurstöður nýrrar rannsóknar sem Gerða Björg Hafsteinsdóttir sérfræðingur hjá Reykjavíkurborg, Erla Sólveig Kristjánsdóttir og Þóra H. Christiansen, hjá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, gerðu á upplifun stjórnenda á áhrifum jafnlaunavottunar á kjaraumhverfi á íslenskum vinnumarkaði.

Fræðigreinin birtist í nýjasta tímariti Stjórnmála & stjórnsýslu.

Niðurstöðurnar þykja sýna fram á að þrátt fyrir að jafnlaunavottun virðist réttmæt og áreiðanleg komu í ljós ákveðnir þættir sem geta gert það að verkum að hægt er að uppfylla skilyrði jafnlaunavottunar þótt kynbundinn launamunur sé til staðar.

Meginmarkmið jafnlaunavottunar sem var lögfest 2017 er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Öllum fyrirækjum sem hafa 25 starfsmenn að jafnaði eða fleiri er skylt að innleiða jafnlaunastaðal stjórnvalda fyrir lok árs 2022. 

Faggiltur vottunaraðili metur hvort öll skilyrði staðalsins hafi verið uppfyllt. Það er ekki hlutverk vottunaraðila að grein hvort um launamun sé að ræða. Jafnréttisstofa hefur heimild til þess að beita þau fyrirtæki sem ekki hafa lokið vottun á tilsettum tíma dagsektum en þeim hefur ekki veið beitt hingað til.

Í lok nóvember höfðu 62% þeirra fyrirtækja sem skylt er að innleiða jafnlaunastefnu fyrir áramót lokið innleiðingunni. Alls eru 267 fyrirtæki komin með jafnlaunavottun nú sem nær yfir 86.517 starfsmenn frá lögfestingu stefnunnar.

Launasetning varð kerfisbundnari í ferli sem þykir íþyngjandi

Flestir viðmælendur rannsóknarinnar sem var eigindleg sögðu að með tilkomu jafnlaunavottunar hefði flokkun launagagna orðið mun betri og skipulagðari en áður. Komið hefði verið á ákveðnu kerfi launa-
setninga og launaákvarðana með tilkomu jafnlaunakerfis auk þess sem verklagsreglur hefðu orðið skýrari.

Viðmælendur greindu einnig frá þeirri upplifun að skráning og skjalfesting gagna væri mun víðtækari og ítarlegri en áður og sögðust margir uppplifa aukið álag vegna krafna um rökstuðning, skráningu gagna, rekjanleika þeirra og skjölun.

Var það upplifun stjórnenda að ferlið væri tímafrekt og kostnaðarsamt en flokkunarvinna sérstaklega mikil. Þannig væri ferlið íþyngjandi og snerist frekar um kerfið heldur en markmið vottunarinnar og ákvarðanir tengdar launum. 

Lítið samræmi milli úttektaraðferða

Upplifðu stjórnendur að úttektaraðferðir vottunaraðila væru mjög ólíkar og lítið samræmi á milli þeirra. Misjafnt var hvaða kröfur viðmælendur rannsóknarinnar þurftu að uppfylla í úttektum og málefnalegur rökstuðningur fyrir hvers kyns launabreytingum var sjaldan eða aldrei skoðaður af vottunaraðilum. Úttektir snerust frekar um að allt væri rétt skjalfest og skráð í kerfinu en ekki að ákvarðanir byggðu á málefnanlegum rökum. Þessar frásagnir viðmælenda gefa til kynna að jafnlaunavottun sé að einhverju leyti tálsýn, segir í niðurlagi greinarinnar.