Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Grjónagrautur getur ekki verið íslenskt fyrirbæri“

Mynd: RÚV / RÚV

„Grjónagrautur getur ekki verið íslenskt fyrirbæri“

26.12.2020 - 09:00

Höfundar

Grjónagrautur er einfaldur matur, bara hrísgrjón soðin í mjólk, samt sem áður flækist þetta ferli fyrir svo mörgum. Hann tengir okkur við jólin, grenjandi svöng börn, fjölskyldur, mömmur, ömmur, hefðir og hatur.

„Ef að fólk myndi hugsa rökrétt: Grjónagrautur getur ekki verið íslenskt fyrirbæri og ekki einu sinni séríslenskt fyrirbæri. Því að veist þú um einhvern sem ræktar hrísgrjón á Íslandi,“ segir Sólveig Ólafsdóttir sagnfræðingur í samtali við Aðalbjörgu Árnadóttur í þættinum Grjónagrautur er eins og soðin ýsa.

Í þættinum, sem fluttur er 26. desember á Rás 1, er rætt um fyrirbrigðið grjónagraut og áhrif hans á tilfinningar og tengsl manna skoðuð.

Grjón sem klessast breyta öllu

„Þetta hefur alltaf verið eitthvað sem tengst hefur ævintýrum heldur en hversdagslegum mat mjög lengi framan af,“ segir Sólveig og vísar til þess að hrísgrjón séu afurð sem var helst ræktuð í sunnarlegum, hlýjum og fjarlægum löndum.

„Ástæðan fyrir því að við höfum þó einhver tengsl við þetta er að þetta hefur svo gott geymsluþol og er þægileg afurð til að flytja á milli landa. Grjón hafa ekki síðasta söludag þannig séð og þetta er verðmæti sem hægt er að kaupa og selja eins og allt annað. Þess vegna flytjast þessi grjón norður um allt.“

Márar komu með grjónin til Evrópu, segir Sólveig, „eins og margt alveg æðislegt og ævintýralega gott.“ Við það hafi orðið til evrópsk útgáfa af grjónum sem eru stutt, þykk og klessast. „Það er það sem skiptir máli þegar við erum að tala um grjónagraut. Það eru þessar klessur sem skipta máli. Þá ertu komin með eitthvað sem heldur vökva og myndar einhvern massa sem hægt er að hafa heitan og þú getur eldað fyrir marga í einu.“

Mjólk splæst í grautinn með aukinni velmegun

Sólveig segir að sú hugmynd, að grjónagrautur hafi alltaf verið mjólkurgrautur, sem hafi verið soðinn og gerður þykkur, standist ekki.

„Eitt af því sem ég hef komist að, með því að lesa eins mikið af heimildum hvaðanæva að, að þegar mjöl er verðmætt og dýrmætt þá er verið að nota lítið af því. Þá er frekar kastað út, þá er það notað til þess að þykkja súpur og þess vegna eru hrísgrjón oft í kjötsúpum. Það er ekki fyrr en við erum orðin aðeins feitari og aðeins ríkari að við getum splæst mjólk út í grautinn. Og ég tala nú ekki um, af því að við erum að tengja þetta við jól – rjóma, smjör eða fitu yfirleitt.“

Þátturinn Grjónagrautur er eins og soðin ýsa er á dagskrá Rásar 1 á öðrum degi jóla kl. 13.