Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Dofinn og tættur eftir skriðuföllin á Seyðisfirði

26.12.2020 - 18:19
Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RÚV
Íbúi við Hafnargötu á Seyðisfirði hélt að það væri hans hinsta stund þegar skriðan féll. Þau hjónin hafa ekki enn geta snúið aftur til síns heima, og segir hann að svæðið sem þau búa á sé óbyggilegt vegna yfirvofandi hættu á frekari skriðuföllum.

Líkt og allir Seyðfirðingar þurftu þau Stefán Smári Magnússon og Sigríður Þórstína Sigurðardóttir að yfirgefa heimili sitt þegar bærinn var rýmdur í heild sinni. Þau fengu inni í húsi ættingja á Eiðum og hafa dvalið þar yfir jólin. Stefán segir þau hafa reynt að gera gott úr stöðunni.

„Svo borðuðum við héra á Þorláksmessu skötu og saltfisk með annarri systur minni og syni hennar og hans fjölskyldu. Og það var mjög gott fannst mér, mjög notalegt en við borðuðum rjúpur á aðfangadag eins og við höfum alltaf gert og okkur voru færðar alltof margar rjúpur, við erum nú þakklát fyrir það en þetta er mjög sérkennilegt og manni finnst þetta, þetta er óraunverulegt.“

Fer ekki mikið fyrir jólaskapinu?

„Nei, ekki svona en þetta hefur allt verið einhvern veginn, svo er maður svo dofinn eða ég að minnsta kosti, ég er svo tættur eftir þetta, maður áttar sig ekki alveg á því hvernig þetta er,“ segir Stefán. 

Hringdi í soninn og kvaddi hann fyrir fullt og allt

Stefán hefur búið á Seyðisfirði í rúmlega 50 ár og segir hann að Seyðifirðingar séu ýmsu vanir þegar kemur að skriðuföllum. Lækurinn ofan við Botnbrún hefur orðið ansi mikill og spíur komið úr fossinum, en ekkert í líkingu við þetta. Lækurinn hafi ekki verið neitt ofboðslega mikill.

„Svo er ég inni í tölvuherbergi, ligg þar í sófa og er að skoða símann minn og þá kemur konan mín inn og hún horfir út um gluggann upp í fjall og segir nei áin er farin. Þá stóð ég nú upp og fór að fylgjast með þessu og hélt að það hefði farið í ána eins og vanalega og að það myndi koma einhver spía fram af klettunum eins og venjulega hefur gerst. Þá segir hún allt í einu við mig að við verðum að forða okkur, fjallið er að koma. Þá sjáum við þetta og heyrðum ofboðslegan hvell og læti og sáum að þetta stefndi beint á okkur. Hraðinn var svo mikill að ég hefði aldrei haft tíma til að koma mér í neitt skjól. Svo ég stóð þarna og horfði á þetta. Svo sé ég að þetta skiptir um stefnu og fer inneftir. Þangað fer flóðið og það bjargar Fossgötu 9 og Múla og hugsanlega fleiri húsum en skriðan kom aldrei á húsið mitt. Það er óbúanlegt í þessu því maður getur ekki verið þarna og þurfa að yfirgefa bæinn í hvert sinn sem það rignir,“ segir Stefán.

Hann segir að á þeirri stundu sem skriðan kom á móti húsinu þeirra hafi hann hugsað með sér að þetta væri hans seinasta.

„Til dæmis þegar ég stóð þarna við gluggann og horfði á þetta koma þá hélt maður að þetta væri bara búið, svo ég hringdi í elsta son minn og kvaddi hann. Svo breytti þetta nú um stefnu, en það hefðu engir garðar eða neinar varnir bjargað þessu, þetta var svo ofboðslegt,“ segir Stefán.

Hann segir að ótal minningar og verðmæti hafi horfið í skriðunni, svo sem Berlín sem hann bjó í í 25 ár, Silfurhöllin, smiðjan og Dagsbrún. 

Finnst almannavarnir hafa brugðist

Stefán segir að fólk verði lengi að vinna úr þessu áfalli og ljós að það mun fylgja Seyðfirðingum lengi. Þá sé svæðið óbyggilegt vegna yfirvofandi skriðuföllum. Hann segir að áætlanir almannavarna hafi ekki legið fyrir.

„Maður verður lengi að jafna sig á þessu og átta sig á þessu almennilega. Það er ekki gott að vakna upp við þetta á nóttunni þegar skriðan er að koma niður fjallið, og hrökkva upp við það. Maður veit ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér. Eins oig ég lít á þetta þá eru húsin fyrir neðan Botnabrúnina, þetta er óbyggilegt svæði. Maður veit ekkert hvenær þetta kemur niður. Þetta er allt sprungið meira og minna fram og til baka.

„Fyrst var maður reiður því almannavarnir brugðust algjörlega. Það er tilviljanakennt hverjir eru reknir út og hverjir ekki. Sumum vinnustöðum er lokað og fólki sem býr á efri hæð skilið eftir og allaveganna. Það er ekki til rýmingaráætlun, það er ekki til flóttaáætlun og þegar skriðan fellur verður algjör ringulreið og það veit enginn sitt rjúkandi ráð og þetta er bara allt í klessu,“ segir Stefán.

Hann segir að varaafl fyrir bæinn hafi brugðist og að fólk hafi verið á flótta af heimilum sínum í kolniðamyrkri. Hann segir að margir hafi eflaust gengið með þetta áfall um jólin. Hann telur að rýma hefði átt stærra svæði fyrr.

„En auðvitað er erfitt að reikna þetta allt úr og átta sig á þessu, ég veit það alveg. En þess vegna á að rýma meira heldur en minna. Það á að rýma miklu stærra svæði og fleiri heldur en að vera að velja úr einhverja sem mega vera og mega ekki vera. Við vorum til dæmis aldrei rekin út úr okkar húsi,“ segir Stefán.

Það sé með ólíkindum að enginn hafi farist. Þetta hafi verið erfið lífsreynsla en þau vilji snúa aftur niður á Seyðisfjörð þegar rýmingu verður aflétt. Það sé þó lítið framboð af húsnæði í bænum.

„Núna skiptir svo gríðarlegu máli að sveitarfélagið, ríkið og almannavarnir drífi upp eitthvað húsnæði fyrir fólkið því það er ekki hægt að búa við þetta. Ég ti dæmis get engan veginn búið í þessu húsi mínu þó að það sé óskemmt. Það er ekki nokkur leið að búa við þetta að það megi ekki koma rigning að þá verði maður að yfirgefa svæðið,“ segir Stefán.

Viðtal við Stefán má heyra í heild sinni hér í spilaranum.