Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Blámi á að stuðla að orkuskiptum á Vestfjörðum

26.12.2020 - 12:59
Ísafjörður Skutulsfjörður Vetur Tekið með dróna
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Bláma, verkefni um orkuskipti á Vestfjörðum, hefur verið ýtt úr vör. Að því standa Landsvirkjun, Orkubú Vestfjarða og Vestfjarðastofa.

„Þetta hefur töluvert mikla þýðingu. Þetta ýtir undir þá sýn og mynd sem við höfum af svæðinu sem birtist í því að sveitarfélögin hafa umhverfisvottun. Við viljum auðvitað að þetta svæði sé samkeppnishæft og aðeins meira en það hvað varðar orkuskipti,“ segir Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

Tilraunir, þróun og innviðauppbygging.

Staðið hefur verið að undirbúningi Bláma síðan í sumar en Landsvirkjun stendur nú þegar að tveimur álíka verkefnum á landinu, á Norður- og Suðurlandi. Bláma er ætlað að skapa vettvang fyrir tilraunir og þróun í orkuskiptum, en einnig stuðla að innviðauppbyggingu. 

„Eitt af því sem er ætlunin með þessu verkefni er að stuðla að bættum innviðum í orkumálum. Það er náttúrulega forsenda þróunar svæðisins, ef svo má segja,“ segir Sigríður. 

Ráða í tvær stöður

„Það sem stendur nú fyrir dyrum er að ráða framkvæmdastjóra og rannsókna- og þróunarstjóra. tvo starfsmenn, til að sinna verkefnum Bláma og móta verkefnið og þá starfsemi sem verður innan þess.“

Ráða á í þessar stöður fljótlega á nýju ári. Landsvirkjun, Orkubú Vestfjarða og Vestfjarðastofa hafa þegar tryggt fjármögnun þessara stöðugilda næstu þrjú árin.