Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Bandaríkin og Ísrael stíga í vænginn við Marokkó

26.12.2020 - 00:33
epa08901743 Israelis passing by the walls of Jerusalem's Old City next to Jaffa gate lit up with the Israeli and Moroccan flags as message of Peace, Jerusalem , 23 December 2020. An Israeli delegation Led by National Security Adviser Meir Ben-Shabba meets king of Morocco Mohammed VI to hammer out an upgrade of ties between the two countries.  EPA-EFE/ATEF SAFADI
Fánum Marokkós og Ísraels varpað á vegg í Jerúsalem til að fagna stjórnmálasambandi ríkjanna Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Ísrael leggja sig í framkróka við að þóknast Marokkókonungi og ríkisstjórn hans þessa dagana. Marokkóstjórn tók nýverið upp stjórnmálasamband við Ísrael, að áeggjan Bandaríkjastjórnar, 20 árum eftir að því var svo gott sem slitið. Bein tengsl eru á milli þessa og viðurkenningar Bandaríkjastjórnar á yfirráðum Marokkó í Vestur-Sahara fyrir skemmstu.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, bætti um betur á aðfangadag þegar hann lýsti því yfir að Bandaríkin hygðust opna ræðismannsskrifstofu í Vestur-Sahara, í samráði við sendiráðið í Rabat. Í dag, jóladag, hringdi svo

Marokkókonungi boðið til Ísraels

Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, í Múhameð VI, Marokkókonung, og bauð honum í opinbera heimsókn til Ísraels. Í tilkynningu ísraelska stjórnarráðsins segir að leiðtogarnir hafi óskað hvor öðrum til hamingju með endurnýjun stjórnmálasambandsins og undirritun samninga um beint flug milli landanna, samstarf á sviði vatnsbúskapar og fjármálastarfsemi og gagnkvæma útgáfu diplómatapassa.

Palestínumenn hafa miklar áhyggjur af svikum arabaþjóða

Í yfirlýsingu frá marokkósku hirðinni er samkomulagi ríkjanna líka fagnað og minnt á sterkt og einstakt samband marokkóskra gyðinga í Ísrael við konungsríkið Marokkó, en um 700.000 gyðingar af marokkóskum uppruna búa í Ísrael. Jafnramt er undirstrikað að afstaða Marokkóstjórnar til málefna Palestínumanna sé óbreytt og verið ekki haggað.

Palestínumenn hafa hins vegar talsverðar áhyggjur af fjölgun arabaríkja í vinahópi Ísraela að undanförnu, því Marokkó er þriðja arabaríkið sem tekur upp stjórnmálasamband við Ísrael í ár, að undirlagi Bandaríkjamanna, og stutt er í að fjórða ríkið bætist í þann hóp.

Yfirlýst markmið Bandaríkjastjórnar með þessum aðgerðum er að styrkja friðinn í Miðausturlöndum en því trúa ráðamenn í Palestínu illa og saka ráðamenn í þessum ríkjum um níðingsleg svik við palestínsku þjóðina. Öll arabaríkin sem um ræðir fá enda nokkuð fyrir sinn snúð.

Vopnasala, aflétting viðskiptahafta og lóð á pólitískar vogarskálar 

Marokkó fær viðurkenningu Bandaríkjanna á yfirráðum yfir Vestur-Sahara, sem fá ríki önnur viðurkenna. Bandaríkjastjórn heimilaði líka á dögunum sölu á F-35 orrustuþotum og margvíslegum hátæknihergögnum öðrum til Sameinuðu arabísku furstadæmanna, sem nýverið endurnýjuðu stjórnmálasamband sitt við Ísrael.

Hagsmunir Bahrain af því að taka þetta skref eru ekki jafn augljósir en stjórnmálaskýrendur Al Jazeera segja yfirvöld þar ekki síst vilja styrkja stöðu sína gagnvart eigin þjóð og voldugum nágrönnum. Með vísan stuðning Ísraels og Bandaríkjanna eigi þau auðveldara með að fara sínu fram og berja niður alla mótspyrnu.

Hagsmunir fjórða arabaríkins blasa hins vegar við öllum: Bandaríkin tóku Súdan nýverið af svörtum lista yfir ríki sem styðja hryðjuverkastarfsemi. Við það gjörbreytast allar aðstæður Súdanstjórnar til að stunda alþjóðaviðskipti mjög til hins betra. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV