Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna hvassviðris á suðvesturhorni landsins í dag. Viðvörunin gildir frá hádegi til miðaftans. Spáð er suðvestan hvassviðri eða stormi við Faxaflóa og á Suðurlandi vestanverðu, og gildir viðvörunin líka á höfuðborgarsvæðinu. Hvassviðrinu fylgir talsverður éljagangur og búast má við snörpum vindhviðum í mestu éljahryðjunum, sem geta skapað varasöm akstursskilyrði, einkum á heiðum.