Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Varað við hvassviðri á suðvesturlandi - kólnar á morgun

25.12.2020 - 08:44
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna hvassviðris á suðvesturhorni landsins í dag. Viðvörunin gildir frá hádegi til miðaftans. Spáð er suðvestan hvassviðri eða stormi við Faxaflóa og á Suðurlandi vestanverðu, og gildir viðvörunin líka á höfuðborgarsvæðinu. Hvassviðrinu fylgir talsverður éljagangur og búast má við snörpum vindhviðum í mestu éljahryðjunum, sem geta skapað varasöm akstursskilyrði, einkum á heiðum.

Einnig má búast við hvössum vindi á landinu norðvestanverðu, 13 - 20 metrum á sekúndu með hviðum sem ná um og yfir 30 metrum á sekúndu. Þar verður þó lítil sem engin úrkoma. Hiti verður í kringum frostmark.

Meinlítið veður framan af morgundeginum en kólnar og hvessir annað kvöld

Á morgun, annan dag jóla, er útlit fyrir aðgerðalítið veður fram eftir degi, með hægri, breytilegri átt og dálitlum éljum um land allt, segir í pistli veðurfræðings. Annað kvöld fer svo að hvessa á nýjaleik, að þessu sinni úr norðri. Þessu fylgir snjókoma og él um allt norðanvert landið, en suðvestanlands léttir til. Frost verður á bilinu 0 - 10 stig og það verður kaldast inn til landsins. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV