Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Týndu ljósmyndirnar frá Seyðisfirði eru fundnar

25.12.2020 - 09:45
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Mörg þúsund ljósmyndir, sem eru í eigu Tækniminjasafns Austurlands og týndust í aurskriðunum sem féllu í bænum fyrr í þessum mánuði, fundust óskemmdar á Þorláksmessu. Myndirnar voru í öryggisskáp sem fannst í rústum safnhússins.

Tvær af byggingum Tækniminjasafnsins eru gjörónýtar og aðrar tvær skemmdust mikið. Meirihluti safnkostsins er nú grafinn undir aurskriðunum og líklegt er talið að hann hafi skemmst.

Sjá einnig: Þúsundir ljósmynda frá Seyðisfirði týndust í skriðunum

Félagar úr Rústasveit Austurlands fundu öryggisskápinn, en auk um 8.000 ljósmynda úr sögu Seyðisfjarðar, þær elstu eru um aldargamlar, voru þar ýmis skjöl. Lykillinn að skápnum týndist í hamförunum og þurfti því að brjóta hann upp og í tilkynningu frá safninu segir að innihaldið hafi ekki orðið fyrir neinum skemmdum.