Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Svona tilfinning eins og foreldrar tengja vel við“

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Almannavörnum segir að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi nú til skoðunar hugsanlegt brot á sóttavarnalögum í Landakotskirkju í gærkvöldi þar sem of margir voru við messu. Hann segist leiður yfir slíkum fregnum og vegna fjölmenns samkvæmis sem haldið var á Þorláksmessukvöld þar sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var meðal gesta.

Rögnvaldur segir að ekki sé aukinn viðbúnaður vegna hátíðanna, en hann óttast að samkomur muni skila sér í auknum fjölda smita í janúar.

„Þetta er náttúrulega sá árstími þar sem hefðirnar okkar kalla á að við séum að hittast og hafa gaman,“ segir Rögnvaldur.

Hann segir að fréttir af brotum á sóttvarnareglum í samkvæmi í Ásmundarsal þar sem fjármálaráðherra var meðal gesta séu óskemmtilegar núna á jólahátíðinni.  „Þessar fréttir sem við höfum fengið í gegnum tíðina þegar koma svona upplýsingar um hópamyndanir og annað, eins og þessa kirkju sem var í gær, maður verður fyrst og fremst leiður. Þetta er svona tilfinning eins og foreldrar tengja vel við, maður er búinn að brýna eitthvað fyrir börnunum sínum og svo fara þau ekki eftir því sem maður segir. Fyrstu viðbrögð eru að maður verði bara sorgmæddur.“

Heldurðu að það hafi áhrif á hegðun almennings þegar ráðherra hagar sér á þennan hátt? „Það er ekki gott að segja. Fólk sem er í stöðum, sem annað fólk horfir til; það er oft fólk sem leggur línurnar fyrir okkur hin.“