Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Sumargleðin breytti öllu

Mynd: RÚV / RÚV

Sumargleðin breytti öllu

25.12.2020 - 12:18

Höfundar

Þorgeir Ástvaldsson var á unglingsaldri þegar hann varð stjórstjarna á Íslandi. Hann hitaði upp fyrir The Kinks ásamt vinum sínum í hljómsveitinni Tempó. Óvænt símtal frá Ragnari Bjarnasyni breytti svo öllum áætlunum og Þorgeir átti skyndilega vinsælasta lag landsins með Sumargleðinni.

Þorgeir ólst upp í kringum mikla tónlist. Móðir hans spilaði á hljóðfæri og söng í kórum, kirkjum og samkomuhúsum og faðir hans var einnig mikill söngvari. Hann segir að í afmælum hjá frændfólki hafi fólk fengið sér kleinur, pönnukökur og heitt kakó en í staðinn fyrir að fylgja því eftir með brennivíni var sungið. 

Þrettán ára var Þorgeir kominn í sína fyrstu hljómsveit í Langholtsskóla. Hann naut þá góðs af mörgum nýbyggingum í kringum heimili hans í Álfheimum. Fjölmargir hálfbyggðir bílskúrar voru í hverfinu og þar fengu strákarnir að æfa sig. Eftir nokkrar æfingar í bílskúrnum stakk maður sem hét Haukur Morthens kollinum inn um dyrnar og spurði hvort þeir kynnu að spila þessa „nýju músík?” Hann var þá að flytja inn bítlahljómsveitina Swingin’ Blue Jeans og bauð þarna Tempó að hita upp fyrir þá. Eftir það ævintýri fékk Tempó sér umboðsmann, það var Baldvin Jónsson, nágranni þeirra úr hverfinu. Skömmu síðar fjármagnaði pabbi Baldvins komu The Kinks til Íslands og að sjálfsögðu var Tempó fengin til að hita upp fyrir stórstjörnunar. „Þeir voru einir af þessum stóru. Bítlarnir, Rolling Stones og The Kinks. Þeirra músík var einföld, hrátt rokk. Þar með hefst þessi leiðangur sem nær hápunkti þegar við spilum, sama ár og Swingin’ Blue Jeans, heimsfrægðin hamaðist í okkur,” segir Þorgeir. 

Tempó spilaði á nokkrum tónleikum með The Kinks í Austurbæjarbíói og strákarnir urðu í kjölfarið nánast heimsfrægir á Íslandi, að minnsta kosti í Álfheimunum og Langholtsskóla. Stuttu síðar bauðst þeim að fara í tónleikaferð um Svíþjóð en ferðin hefði þýtt að þeir þyrftu að hætta í skólanum. Tíminn með Tempó er þó eftirminnilegur, að sögn Þorgeirs og þá sérstaklega þegar hljómsveitin ferðaðist um landið með The Kinks og bassaleikari þeirra þóttist stökkva niður í Almannagjá. „Hann stekkur og hverfur sjónum okkar. Hjartað í öllum stoppaði. En þá stökk hann niður á syllu og kom svo upp á brún og gerði grín að okkur. Svona augnablik man maður mjög vel, má ekki gleyma því að þetta var heimsfrægur poppari. Menn vildu ekki missa hann á Þingvöllum,” segir Þorgeir.

Eftir grunnskólann fór Þorgeir í Mennstakólann í Reykjavík en að eigin sögn leiddist honum alltaf í námi. Hann kláraði þó skólann og skráði sig í landafræði við Háskóla Íslands í kjölfarið. Tilviljanir urðu svo til þess að líf Þorgeirs færðist inn á aðrar brautir og hann vakti mikla athygli fyrir störf sín í fjölmiðlum. Samhliða því að starfa í útvarpi og vinna við diskótek í Tónabæ ákvað Þorgeir að gerast heimavinnandi húsfaðir. Hann gat tvinnað það ágætlega saman við tónlistina og auglýsingalestur og eiginkona hans, Ásta Eyjólfsdóttir, fór þá út á vinnumarkaðinn og Þorgeir var heima með börnin tvö sem voru þá fædd. 

Tónlistin hélt alltaf áfram að toga duglega í Þorgeir og á tímabili var hann djúpt sokkinn í hugmyndavinnu fyrir norræna víkingahljómsveit sem hann var að koma á fót ásamt Pétri Kristjánssyni. „Við ætluðum að stofna rokkhljómsveit til að túra norðurhluta Norðurlandanna. Norður-Finnland, Norður-Svíþjóð, Noregur og Færeyjar og Grænland,” segir Þorgeir. Ímyndin skipti þá miklu máli og ekkert átti að spara þegar kæmi að klæðnaði þeirra. „Ætluðum að vera í skinnpilsi á sviði og vafninga upp kálfana, alvöru. Svo skikkja, síðhærðir og loðnir. Við vorum með týpur eins og Eika Hauks í sjónmáli, við vorum allir sæmilega hærðir. Við fengum skartgripahönnuð til þess að búa til ornament til þess að skreyta okkur með,” segir Þorgeir. Ferlið var langt komið þegar eitt símtal breytti öllu.

„Ég kem heim á mánudegi í Maríubakkanum þar sem ég bjó. Ég kem inn og síminn hringir: „Sæll og blessaður, þetta er Ragnar Bjarnason. Má bjóða þér í Sumargleðina?" Hvað átti ég að gera?,” segir Þorgeir sem tilkynnti Pétri að víkingahljómsveitin yrði að bíða betri tíma. Hann væri nefnilega genginn til liðs við Sumargleðina. 

Fannst flugvélin falla um þúsund fet

Eitt vinsælasta lag Sumargleðinnar er Ég fer í fríið sem Þorgeir syngur. Hann ætlaði sér ekki að syngja lagið og fékk vægt áfall þegar hann sá að Ragnar Bjarnason hafði tilkynnt þjóðinni í blaðaviðtali að Þorgeir Ástvaldsson kæmi með frumraun sína í dægurlagasöng á nýrri plötu Sumargleðinnar. Sagan á bak við lagið er þannig að Þorgeir sat í Hljóðrita ásamt þeim Ragnari Bjarnasyni og Gunnari Þórðarsyni þegar þeir uppgötva að það vantar sjómannalag á þessa fyrstu plötu Sumargleðinnar. Þorgeir átti gott safn af ítalskri tónlist heima hjá sér og bauðst til að finna gott lag sem væri hægt að íslenska. „Ég sem sagt hleyp heim og gríp þar tvær plötur, önnur var með Toto Cutogno og heitir Innamorati, einfaldur söngur um ást, unað og allt þetta ítalska,” segir Þorgeir. Hann hugsaði um hvað lagið ætti að vera og vildi fá texta sem fjallaði um sjómann á leið í frí í landi.

Hann velti fyrir sér hver gæti snarað fram íslenskum texta og datt þá í hug að tala við Iðunni Steinsdóttur. „Ég fer til hennar að kvöldi til, ég er sjálfur á leiðinni til Ítalíu. Ég átti Ítalíutúrinn áður en ég kláraði plötuna. Ég hringi bjöllunni hjá Iðunni að kveldi, tíu eða hálf ellefu. Ég segi: „Komdu blessuð og sæl, löng saga stutt. Getur þú búið til texta fyrir þetta ítalska lag hérna?” Hann útskýrði í stuttu máli um hvað lagið átti að vera og spyr hvort hún geti klárað textann. Iðunn samþykkti að semja íslenskan texta við lagið en brá vissulega að hann þyrfti að helst að vera klár sama kvöld. „Ég veit ekkert hvernig hún fór að því en hún skilaði mér textanum á hádegi daginn eftir,” segir Þorgeir.

Þorgeir hélt svo til Ítalíu þar sem hann starfaði sem fararstjóri og í flugvélinni á leiðinni heim var hann að glugga í Morgunblaðið. „Þar var viðtal við Ragnar Bjarnason. Segir frá nýrri plötu sem er að koma út með Sumargleðinni. „Þetta er æðisleg plata. Þarna er Þorgeir með frumraun sína sem dægurlagasöngvari.” Flugvélin, hún féll um mörg þúsund fet,” segir Þorgeir. Lagið sló svo í gegn og Þorgeir gat hvergi komið fram án þess að syngja lagið. Hann sagði einmitt við Ragnar Bjarnason að hann yrði fegnastur því þegar hann myndi hætta í Sumargleðinni að þurfa ekki að syngja Ég fer í fríið hundrað sinnum á hverju kvöldi. „Þá sló hann á öxlina á mér. „Heyrðu Þorgeir, ég söng Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig árið 1960, ég söng það síðast í gær,” segir Þorgeir.

Sumargleðin skemmti mikið um land allt næstu árin og Þorgeir lýsir þeim árum sem besta skólanum. Skemmtanabransinn hafði lengi einkennst af brennivínsdrykkju en Ragnar Bjarnason sá til þess að menn héldu sér á mottunni í Sumargleðinni. Ragnar Bjarnason sagði: „Hér er ekki dropi og hér verða allir að sofa í rúmum á hótelum,” það er að segja ekki í tjöldum eða fara eitthvað út í bæ að sofa. Hann hélt það. Þess vegna munum við þetta allt. En þessi ár, '80, '81, '82 og '83 er minn langbesti skóli um lífið og tilveruna. Ekki af því að ég er sveitamaður. Þarna hitti maður fólk í amstri dagsins. Þarna hitti maður fólk í gegnum þá sem höfðu farið þessa túra um áratugaskeið eins og Raggi. Þarna komst maður í samband við fólk sem maður vissi ekki að væri til og hafði sínar lífsskoðanir. Maður fór út úr þessu bara útskrifaður í Íslandi. Hvernig íslensk þjóð hugsar. Hvernig fólk er hérna. Það hafði orðið mikill aðskilnaður borgmenningar og dreifbýlis. Þetta var það sem Ragnar Bjarnason hafði að segja þegar maður náði honum á góðri stundu að spjalla um þetta. Ótrúlega skærar minningar um þetta mannlíf sem var þarna á þessum tíma. Til sveita og í sjávarþorpum. Þarna kynntist maður fólki sem maður enn þann dag í dag þekkir,” segir Þorgeir um ævintýri Sumargleðinnar. 

700.000 krónu loftbelgur

Eftir árin í Sumargleðinni tók Þorgeir við starfi dagskrárstjóra Rásar 2 og þaðan fór hann á Stjörnuna, nýja útvarpsstöð sem hann tók þátt í að stofna. Þar vann hann með Gunnlaugi Helgasyni og Jón Axel Ólafssyni. Stjarnan fór hratt upp en leiðin niður var einnig hröð. „Þeir eru mínir bestu vinir, við fórum þarna í æðisgengin dans. Við vorum of háfleygir, fórum of hratt yfir. Þetta var of blautt, of tilviljunarkennt til að við næðum einhverri fótfestu. Enda á tíma þegar fleiri eru komnir til sögunnar og útvarpsbylgjan er að tútna út verulega,” segir Þorgeir. Stjarnan var öflug þegar kom að markaðsstarfi enda var engu til sparað í starfinu. „Við vorum út um allt. Vorum alltof kaldir í öllu. Mannaráðningum, græjukaupum. Fengum hérna Breta til að koma og smíða stöðina. Við fórum á toppinn og á botninn. Of mikið sull í bjór og brennivíni, það var aðallega brennivín þá. Þetta var nákvæmlega það sama og Ragnar Bjarnason slökkti á 1977 með vímugjafanna, eða brennivínið.

Við fórum bara fram úr okkur í einu og öllu. Það er ekki neinum um að kenna. Það voru miklar sviptingar í viðskiptalífinu hér á Íslandi. Það voru fyrirtæki sem vildu kaupa okkur, vildu kaupa tapið, það var eitthvað nýtt, að kaupa tap. Að kaupa orðsporið af Stjörnunni. Það var ágreiningur um það náttúrulega við viðskiptaaðila sem höfðu af þessu viðskiptahagsmuni sem við vorum kannski ekki að hugsa um á hverjum degi beinlínis. Við vildum bara hafa meiri læti. Við vorum að kaupa upptökur, fokdýrar, hljóðmerkingar. Mér er nú oft hugsað til þess að við keyptum loftbelg í Bandaríkjunum fyrir 700.000 til að fljúga hér yfir. Það voru alls konar skemmtiatriði hér í gangi skal ég segja þér,” segir Þorgeir. Hann segir að stöðin hafi þó verið töff en oft fari þannig fyrir töffurum að ætlunin sé að vera of töff. „Þá snýst það mjög fljótt upp í andhverfu sína og þú ert vesæll auli sem dettur í götuna,” segir Þorgeir. 

Endalok Stjörnunnar tóku á en Þorgeir segir að hann hafi lært mikið á því hvernig fór fyrir stöðinni. „Þá gat maður fundið í bókhaldinu ýmislegt sem maður hefði viljað hafa öðruvísi og hét sjálfum sér því,” segir Þorgeir. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Fékk skammir frá útvarpsráði fyrir óveðursfréttir