Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rýmingaráætlun á Seyðisfirði í gildi fram á mánudag

25.12.2020 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Rýmingaráætlun verður í gildi í hluta Seyðisfjarðar til mánudags, 28. desember - degi lengur en upphaflega var gert ráð fyrir vegna hlýinda á svæðinu. Rennsli hefur aukist í ám og lækjum og vel er fylgst með skriðuhættu.

Á annað hundrað Seyðfirðinga hafa ekki fengið að snúa aftur til síns heima síðan bærinn var rýmdur vegna skriðufalla fyrir viku síðan. Rýmingaráætlunin átti að gilda til sunnudags, 27. desember, en öllum áætlunum hefur verið seinkað fram á mánudag.

„Það fer ekki að kólna aftur fyrr en 28., á mánudag, og ég geri ráð fyrir að það gerist ekkert í sjálfu sér fyrr en á þeim degi. Þannig þetta færist til um einn dag,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi. Byrjað var að hreinsa eftir skriðuföllin á Seyðisfirði á Þorláksmessu áður en hlé var gert yfir hátíðisdagana.

Engar sjáanlegar skriður fallið núna

„Við náðum svona að gera klárt fyrir hátíðirnar, fergja það sem þurfti að fergja eins og við best vitum. Síðan hefst vonandi hreinsunarstarf á fullu síðan á mánudag.“

Er þér kunnugt um einhverjar skriður sem hafa fallið núna?

„Engar skriður sem við höfum séð, en það er að aukast í ám og lækjum. Þannig við fylgjumst bara vel með og munum gera áfram.“

Gefur aukna von í hreinsunarstarfinu

Það bárust jákvæð tíðindi á Þorláksmessu, þegar mörg þúsund ljósmyndir sem eru í eigu Tækniminjasafns Austurlands og týndust í aurskriðunum, fundust óskemmdar. Myndirnar voru í öryggisskáp sem fannst í aurnum. Má segja að það sé ákveðið ljós í myrkrinu?

„Það hlýtur að vera og gefur fólki svona aukna von í því hreinsunarstarfi sem er fram undan,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi.