Óvenjulegt jólahald í Grímsey

Mynd með færslu
 Mynd: Karen Nótt Halldórsdóttir

Óvenjulegt jólahald í Grímsey

25.12.2020 - 13:01

Höfundar

Óvenjumargt hefur verið í Grímsey í vetur og margir Grímseyingar eru heima yfir jólahátíðina. Faraldurinn hefur áhrif þar eins og annarsstaðar og breytir jólahaldinu. Mestallt samkomuhald í eyjunni fellur niður.

„Á heimiliunum er bara allt svipað, en við slepptum því að hafa jólahlaðborð og það verður ekki jólatrésskemmtun, ekkert dansað í kringum jólatréð í ár. Og það verður ekki jólamessa til dæmis." Segir Ragnhildur Hjaltadóttir starfsmaður á flugvellinum í Grímsey.

Hátt í sextíu Grímseyingar heima yfir jól og áramót

En það hafa óvenjumargir Grímseyingar verið heima í vetur. Þar er ekkert skólahald og grunnskólabörn því í skóla á Akureyri og mæður þirra fylgja þeim þangað. En vegna truflana á skólahaldi hafa þau verið heima í Grímsey og krakkarnir fá kennslu þar. „Við erum hátt í 60 í eyjunni og verðum yfir jólin, segir Ragnhildur.“
„Hvað voru margir á sama tíma í fyrravetur?“
Vorum við ekki um 30 eitthvað svoleiðis. Og við vorum alveg niður í ellefu þarna um haustið."

Breytir miklu að hafa svo marga heima

Og hún segir það breyta miklu að hafa allt þetta fólk heima. „Ójá heldur betur! Ljós í húsum og maður hittir einhverja ef maður fer út og svona. Alltaf líf og fjör í búðinni og bara skemmtilegt." 

Vonandi hægt að hafa áramótabrennu

Ragnhildur vonar að Grímseyingar geti fagnað áramótunum rækilega með flugeldum og brennu. „Það er mikil flugeldagleði í Grímseyingum, mikið skotið upp hérna. Vonandi verður það allt saman eins og verið hefur, bara hver og einn heima hjá sér. Vonandi verður áramótabrenna, ég vona það, en það er ekki búið að taka ákvörðun um það.“ 

Ánægð með alla íslensku ferðamennina í sumar 

Við Grímseyingar viljum bara senda öllum landsmönnum hugheilar jóla- og nýársóskir. Og sérstakar þakkir til þeirra Íslendinga sem komu hingað í sumar, við höfðum mjög gaman af því að sjá svona marga landsmenn koma til okkar,“ segir Ragnhildur.

 

Tengdar fréttir

Norðurland

Rafmagn með vind- og sólarorku í Grímsey

Norðurland

Frekari aðgerða þörf til að treysta byggð í Grímsey

Akureyri

3 milljónir í markaðssetningu Hríseyjar og Grímseyjar

Akureyri

Ungir Grímseyingar bæta við flotann í eynni