Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Nýtt jólalag með Birgittu Haukdal og Þórólfi Guðnasyni

Mynd með færslu
 Mynd: Sævar Jóhannesson - RÚV

Nýtt jólalag með Birgittu Haukdal og Þórólfi Guðnasyni

25.12.2020 - 11:21

Höfundar

Þórólfi Guðnasyni er augljóslega margt til lista lagt. Auk þess að gegna starfi sóttvarnalæknis er Þórólfur öflugur söngvari. Í þetta sinn syngur hann dúett ásamt stórstjörnunni Birgittu Haukdal.

Ein á jólanótt er nýtt íslenskt jólalag sem verður frumflutt í Jólastundinni kl. 19.30 á RÚV í kvöld. Leifur Geir Hafsteinsson samdi lagið. Hann samdi einnig textann við Ferðumst innanhúss sem sló í gegn fyrr á árinu. Hann vildi styða við bakið á Þórólfi á þessu erfiða ári og reyna að gera gott úr þessum skringilegu aðstæðum. „Ferðumst innanhúss var ætlað að halda fólki heima yfir páskana og það gekk nokkuð vel,” segir Leifur Geir. Hann segir nýja lagið, Ein á jóladagskvöld, minna okkur á að huga að þeim sem eru einmana um jólin. „Þeir verða því miður fleiri núna en venjulega, einmitt vegna COVID. Þórólfur fékk að syngja lagið, bæði vegna þess að hann langaði að syngja með Birgittu en líka vegna þess að hann er miklu betri söngvari en ég,” segir Leifur Geir. 

Leifur Geir og Þórólfur hafa þekkst nánast frá því að Leifur fæddist og segist hann hafa farið á sína fyrstu Þjóðhátíð með Þórólfi þegar hann var aðeins fimm mánaða, en þá var Þórólfur nýorðinn kærasti náfrænku Leifs. „Við höfum spilað og sungið í óteljandi gítar- og Bítlapartýum og leikið saman í nokkrum hljómsveitum í gegnum tíðina. Núna tilheyrum við alþýðutónlistarhópnum Vinir og vandamenn sem leggur mesta áherslu á að halda á lofti tónlistararfi Eyjamanna og njóta þess að spila og syngja saman,” segir Leifur Geir um vinskap þeirra Þórólfs. 

Árið hefur verið ansi viðburðaríkt hjá Þórólfi og segir hann COVID eins og það leggur sig hafa verið risapakka sem hafi yfirtekið allt lífið á þessu furðulega ári. Tveir tónlistartengdir atburðir standi þó upp úr í einkalífinu á þessu ári. „Annars vegar þátttakan í myndbandinu Ferðumst innanhúss þar sem margir frábærir listamenn hvöttu landsmenn til að vera heima um páskana með góðum árangri. Hins vegar var það dúettinn með Hafsteini syni mínum, þegar við sungum Ég er eins og ég er á hátíðardagskrá Hinsegin daga,” segir Þórólfur.

Líkt og hjá mörgum landsmönnum verða jólin með óhefðbundnum hætti hjá Þórólfi og fjölskyldu um jólin. „Þetta árið höldum við pínulítið boð með allra nánustu ættingjum heima hjá okkur. Það er alveg fastur liður sem ég hef hlakkað mikið til að undanförnu, ekki síst þegar ég dvaldist á sóttvarnarhótelinu í aðdraganda jólanna. Það jafnast ekkert á við jól með fjölskyldunni,” segir Þórólfur að lokum.

Glæsilegt tónlistarmyndband við Ein á jólanótt verður frumflutt í Jólastundinni á RÚV kl. 19.30 í kvöld. Að sögn umsjónarfólks þáttarins, þeirra Sigynar Blöndal og Andra Freys Viðarssonar er þetta besti jólaþáttur veraldar. Þau taka á móti góðum gestum og segja þetta vera heilaga stund þar sem fjölskyldur koma saman til að hlæja og njóta.