Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lögregla: Á annað hundrað manns í kirkju í miðborginni

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu brást við tilkynningu um hugsanlegt brot á sóttvarnalögum í kirkju í miðborg Reykjavíkur á ellefta tímanum á aðfangadagskvöld. Þegar lögreglumenn komu á vettvang töldu þeir um það bil 50 manns á leið út úr kirkjunni og á milli 70 og 80 manns inni í henni, bæði fullorðna og börn.

Í tilkynningu lögreglu segir að aðeins sumir kirkjugesta hafi verið með andlitsgrímur og bara einn sprittbrúsi sjáanlegur innandyra. Svo stutt er á milli sæta og bekkja í kirkjunni, segir í tilkynningu lögreglu, að engin leið sé að tryggja tveggja metra bil milli manna þegar slíkur fjöldi er þar inni. Rætt var við sóknarprestinn og honum bent á, hvað betur mætti fara. Ekki kemur fram í hvaða kirkju þetta var, heldur einungis að hún sé í hverfi 101 í Reykjavík.