Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Leyfi fyrir nýju húsi við Skólavörðustíg fellt úr gildi

25.12.2020 - 14:27
Mynd með færslu
 Mynd: Ísar Ágúst - Aðsend Mynd
Úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála hefur fellt úr gildi byggingarleyfi fyrir þriggja hæða staðsteyptu húsi við Skólavörðustíg 36. Það átti að rísa í stað friðaðs húss sem var rifið í leyfisleysi í haust. Verslunarhúsnæði átti að vera á fyrstu hæð en íbúðir á annarri og þriðju hæð.

Húsið við Skólavörðustíg 36 hýsti meðal annars búsáhaldaverslun Þorsteins Bergmans. 

Það hrundi að mestu leyti í september þegar verið var að taka þak og timburgólf úr húsinu en samkvæmt byggingaleyfi átti að hækka húsið um eina hæð. Eigandi hússins sagði húsið ekki hafa verið rifið heldur hefði þetta verið óhapp þar sem ekki var burðarvirki á framhlið hússins.

Sótt var um byggingaleyfi fyrir nýrri þriggja hæða nýbyggingu og kærði eigandi fasteignar við Skólavörðustíg 30 það til úrskurðanefndarinnar. Hann taldi að hækkun á hinu nýja húsi væri verulega íþyngjandi þar sem hún myndi skerða útsýndi frá efstu hæð húss hans. Byggingafulltrúi borgarinnar hefði ekki mátt leyfa slíkt án þess að fyrir lægi skriflegt samþykki.

Eigandi hússins við Skólavörðustíg 36 ítrekaði í bréfi sínu til nefndarinnar að það hefði verið óhapp að hið friðaða hús hrundi. Eftir að framhliðin hrundi hafi ekki annað verið í stöðunni en að sækja um byggingaleyfi til að byggja þriggja hæða staðsteypt hús á lóðinni. Gert hafi verið ráð fyrir hús af þessari gerð í deiliskipulagi.

Úrskurðarnefndin bendir á í úrskurði sínum að samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé heimilt að reisa hús upp á 281,5 fermetra á lóðinni. Hið nýja hús sé 314,8 fermetrar. Byggingaleyfið hafi því ekki verið í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir og var því fellt úr gildi.