Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Íhuga að leggja fram vantrauststillögu á hendur Bjarna

25.12.2020 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Til skoðunar er innan þingflokks Pírata að leggja fram vantrauststillögu á hendur Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra eftir að hann varð uppvís af því að vera í of fjölmennu samkvæmi í miðborg Reykjavíkur á Þorláksmessukvöld.

Lögreglan leysti upp samkvæmi í Ásmundarsal í miðborg Reykjavíkur á Þorláksmessukvöld þar sem of margir gestir voru saman komnir. Meðal gesta var Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra  ásamt eiginkonu sinni. Lögreglan sagði að ölvun hafi verið talsverð, enginn með grímur og aðgengi að spritti lítið sem ekkert.

Hvorki Bjarni né aðstoðarmenn hans hafa svarað fyrirspurnum fréttastofu í morgun né í gær. Jón Þór Ólafsson þingmaður pírata og formaður stjórnskipunar og eftirlitsnefndar segir að málið verði til þess að traust í garð Bjarna og stjórnmálamanna minnki. Þetta sé ekki í fyrsta sinn sem ráðherra gerist uppvís af sóttvarnabroti. Hann segir að  metið verði á næstu dögum hvort að þingmenn flokksins leggja fram vantrauststillögu  á hendur Bjarna þegar þing kemur saman á ný.

„Við vantreystum fjármálaráðherra, við treystum honum ekki til að fara með völd. Hvort að hann gerir eitthvað sjálfur eða hvort að við leggjum hana fram, við erum ekki búin að klára það samtal í þingflokknum, Það bara voru hátíðleg jól, en  við munum ræða það í framhaldinu hvernig við munum nálgast það,“ segir Jón Þór.

Hann segir málið ekki varða stjórnskipunar og eftirlitsnefnd beint, en það varði siðanefnd þingsins. Allir geti sent inn ábendingar um meint brot þingmanna á siðareglum þingmanna. Hann segir Bjarna hafa sýnt af sér mikið dómgreindarleysi með hegðun sinni.

„COVID er búið að kosta okkur alveg svakalega mikla fjármuni  og ofboðslega skert félagsleg tengs. Það er búið að kosta ríkissjóð tugi milljarða,  það er búið að kosta samfélagið í heild tvöfalt, þrefalt það og ef það fer af stað annar faraldur kostar það einhverja tug milljarða  í viðbót og skert mannréttindi. Fyrst og fremst dómgreindarleysi að taka sénsinn á því að senda af stað annan faraldur, sérstaklega sem fjármálaráðherra sem veit alveg hvað þetta kostar,“ segir Jón Þór.