Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Icelandair selur tvær MAX-vélar og tekur þær á leigu

25.12.2020 - 04:48
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Icelandair skrifaði í gær undir samning um sölu á tveimur þeirra Boeing 737 MAX 9 flugvéla sem fyrirtækið pantaði hjá Boeingverksmiðjunum á sínum tíma. Kaupandinn er Sky Aero Management (SKY Leasing), fyrirtæki sem sérhæfir sig í útleigu og kaupleigu á flugvélum. Jafnframt var samið um að Icelandair myndi leigja vélarnar tvær af Sky Aero Management í tólf ár frá því að þær verða afhentar, sem að líkindum verður í vor.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair. Þar segir enn fremur að félagið hafi þegar samið við BOC Aviation um sölu og endurleigu á einni MAX 8 vél, og um fjármögnun til vara fyrir þrjár MAX-vélar til viðbótar, sem til sendur að afhenda í lok næsta árs og byrjun ársins 2022.

Kyrrsettar eftir flugslys

Allar MAX-þotur Boeing voru kyrrsettar í mars 2019 í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa, sem rakin voru til galla í stýrikerfi vélanna. Eftir gagngerar endurbætur er farið að veita þeim flughæfnisskírteini á ný hér og þar, þar á meðal í Bandaríkjunum, en annars staðar, svo sem í Kína, hefur því verið lýst yfir að þær verði ekki velkomnar í flughelgi landsins í bráð. 

Kórónaveirufaraldurinn hefur tafið enn frekar fyrir endurkomu vélanna í háloftin, þar sem farþegaflug hefur nánast legið niðri vegna hans lungann úr þessu ári.