Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Evrópuleiðtogar fagna Brexit-samningi

25.12.2020 - 01:02
epa08902145 The Official Dresser takes a picture with a mobile phone of the Brussels' famous fountain sculpture Manneken Pis (Little Pissing Man) wearing a Santa Claus outfit as part of the Christmas celebrations, in Brussels, Belgium, 24 January 2020. The bronze fountain sculpture remains the emblem of the rebellious spirit of the Belgian capital Brussels. His wardrobe counts more than 900 suits.  EPA-EFE/OLIVIER HOSLET
Frá og með 1. janúar á næsta ári þurfa Bretar að hafa með sér vegabréf, vilji þeir heimsækja Mannekin pis, sem klæddi sig upp í jólasveinabúning í tilefni hátíðanna, í Brussel, þar sem Evrópusambandið er með höfuðstöðvar sínar.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Samkomulagi Breta og Evrópusambandsins hefur verið fagnað víða í dag og þeir leiðtogar Evrópusambandsríkja sem hafa tjáð sig um samninginn allir verið á jákvæðu nótunum. Angela Merkel, Þýskalandskanslari, segir samninginn sögulegan og leggja grunninn að nýjum kafla í sambandi Bretlands og Evrópusambandsins.

„Bretland verður áfram mikilvægur bandamaður Þýskalands og Evrópusambandsins, þótt það standi utan ESB,“ sagði kanslarinn, sem segir að ríkisstjórn hennar muni nú fara rækilega yfir samninginn, svo hægt verði að klára málið fyrir áramót. „Ég hef mikla trú á að við séum hér með góða lausn í höndunum,“ sagði Merkel.

Þarf samþykki allra aðildarríkja

Til að samningurinn öðlist gildi til bráðabirgða þurfa breska þingið, og ríkisstjórnir allra aðildarríkja Evrópusambandsins að samþykkja hann. Sendiherrar allra 27 aðildarríkja hjá sambandinu koma saman í Brussel í dag til að rýna í samninginn og er reiknað með að þeir taki sér tvo til þrjá daga í það verk. Neðri deild breska þingsins verður kölluð saman á miðvikudag, 30. desember, til að greiða atkvæði um samninginn.

Evrópuþingið og þjóðþing allra aðildarríkja ESB þurfa svo að leggja blessun sína yfir samninginn áður en hann verður staðfestur með formlegum hætti. Ekki er gert ráð fyrir að það gerist fyrr en á nýju ári.

Vilja klára fyrir áramót

Þjóðverjar fara með formennsku í leiðtogaráði Evrópusambandsins þetta misserið og þýski utanríkisráðherrann segir allt verða gert til að samningurinn geti tekið gildi án tafar. „Loksins sáum við hvítan reyk liðast upp af samningaborðinu, en samningurinn er þó enn ekki fullfrágenginn,“ sagði ráðherrann, Heiko Maas, í Berlín á aðfangadag. „Sem formennskuþjóð í leiðtogaráðinu munum við gera allt sem hægt er til að samningurinn geti tekið gildi hinn 1. janúar 2021.“

Macron: „Evrópska staðfestan borgaði sig“

Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, er líka ánægður með lyktir mála. „Evrópska samstaðan og staðfestan hafa borgað sig,“ skrifaði Macron á Twitter, en Frakkar voru iðulega fastir fyrir og þóttu lítt sveigjanlegir á sumum sviðum, ekki síst varðandi veiðiréttindi franskra sjómanna í breskri lögsögu. „Samkomulagið við Bretland er mikilvægt, til að að verja borgara okkar, sjómenn og bændur,“ skrifaði Macron.

Ólíkar skoðanir á Írlandi og í Skotlandi

Michéal Martin, forsætisráðherra Íra, er fullur bjartsýni og segir samninginn „mikið fagnaðarefni.“ Nú geti samningsaðilar einbeitt sér að því að koma á og viðhalda „góðu sambandi sín á milli á næstu árum.“

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, er á annarri línu og segir engan samning geta vegið upp á móti því, sem Brexit taki frá Skotum. „Það er kominn tími til að við mótum okkar eigin framtíð sem sjálfstæð, evrópsk þjóð,“ skrifaði Sturgeon á Twitter.

Belgar og Hollendingar ánægðir

„Frábærar fréttir,“ skrifaði aftur á móti Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, þegar samningurinn var kynntur til sögunnar. Rutte segir samninginn „afar mikilvægan“ og að hollenska stjórnin muni nú leggjast yfir hann til að kynna sér efni hans í þaula. Þá hrósar hann þeim Michel Barnier, aðalsamningamanni ESB, og Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandins, í hástert og þakkar þeim „ómetanlegt framlag þeirra.“

Alexander De Croo, forsætisráðherra Belgíu, er líka ánægður með samninginn, sem hann segir tryggja hagsmuni belgísks atvinnu- og viðskiptalífs. Allir hefðu hins vegar tapað á því, ef Bretar hefðu yfirgefið Evrópusambandið samningslausir. „Nú getum við farið að vinna á grundvelli nýrra, sterkra tengsla við okkar aldagamla samherja, sem Bretland var og verður áfram. Það er kominn tími til að horfa til framtíðar,“ segir De Croo í viðtali við belgíska blaðið de Standaard.