Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áfall að sjá húsið umflotið á eftirlitsmyndavélinni

25.12.2020 - 18:33
Mynd með færslu
 Mynd: ólafur gunnarsson
Hvítá í Borgarfirði flæddi hressilega yfir bakka sína í dag og yfir Hvítárvallaveg á stórum kafla. Ólafur Gunnarsson, eigandi gistiheimilisins Hvítár til sjö ára, hefur aldrei séð annað eins. 

„Það var smá áfall að sjá þetta bara svona á wifi-camerum sem ég sem betur fer var með tengt við húsið hérna, annars hefði maður ekkert vitað af þessu.“

Brunaði í Borgarfjörð til að kanna ástandið

Ólafur var í Reykjavík og dreif sig beinustu leið upp í Borgarfjörð, ók í gegnum vatnselginn til að kanna ástand hússins. Vegurinn var á floti og túnin í kringum bæinn sömuleiðis. „Við erum eiginlega á eyðieyju hérna.“

Eruði innlyksa? 

„Nei, ég segi það nú ekki, við erum á litlum jeppling þannig að við komumst yfir veginn, hann er ekki kominn í sundur og virðist vera í lagi en við höfðum miklar áhyggjur af því að það myndi flæða inn í húsið en það hefur sloppið til, það eru dælur inni í húsinu sem dæla vatninu, því það er í húsinu kjallari sem er fyrir neðan sjávarmál.“ 

Hugsanlegt tjón á girðingum

Heiða Dís Fjeldsted, reiðkennari á bænum Ferjukoti, hefur líka orðið vel vör við flóðið. „Það er svo sem bara mikið vatn og flæðir hér upp að flestum húsum, inn í garð á íbúðarhúsinu sem við búum í, alveg hátt upp að útihúsunum, það hefur ekki orðið tjón, sem við sjáum svona í fyrstu, ekki nema bara girðingar,“ segir Heiða en þegar fréttastofa ræddi við hana síðdegis var kolvitlaust veður, él og slæmt skyggni.

Mynd með færslu
 Mynd: ólafur gunnarsson

Vegurinn líklega skemmdur

Heiða segir að vegurinn sé fær Hvanneyrarmegin, en að líklega hafi orðið skemmdir á þeim kafla Hvítárvallavegar sem flæddi yfir. „Það var greinilega farið að fara úr veginum mikið efni, maður sá það þegar maður keyrði að honum.“

Ólafur segir lögregluna hafa komið og metið það svo að flóðið væri í rénun „Það er alveg rétt hjá þeim að þetta er í rénun og vegurinn er smátt og smátt að koma í ljós hérna.“
 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV