Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þórólfur: Mjög slæmt að ráðherra fari ekki eftir reglum

Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
„Það er bara mjög slæmt þegar forystumenn þjóðarinnar fara ekki eftir þessum reglum,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Hann segir að sé það rétt, sem komið hefur fram um samkvæmi sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var í í gærkvöldi í Ásmundarsal, hafi sóttvarnalög verið brotin. „Ef það er rétt sem þar kemur fram þá er þetta klárlega brot á sóttvarnarreglum og mér finnst það miður að þetta hafi gerst,“ segir Þórólfur.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér fréttatilkynningu í morgun um að hún hefði verið kölluð til vegna samkvæmis í miðborginni klukkan hálf ellefu í gærkvöldi. Þar segir að milli fjörutíu og fimmtíu hafi verið í salnum, þar á meðal einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Töluverð ölvun hafi verið í samkvæminu og flestir gestanna með áfengi við hönd. Lögreglumenn veittu því athygli að enginn var með grímu. Lögreglumenn sögðu að nánast hvergi hefðu fjarlægðartakmörk verið virt, segir í tilkynningu lögreglunnar. 

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra viðurkenndi svo í færslu á Facebook í morgun að hann hefði verið ráðherrann í samkvæminu í Ásmundarsal. Þar skrifar Bjarni  að þegar hann hafi komið í salinn hefði honum átt að vera ljóst þar voru fleiri en reglur gerðu ráð fyrir. Hann segist hafa verið í húsinu í um fimmtán mínútur þegar lögregla kom. Þá biðst hann afsökunar á því að hafa ekki yfirgefið listasafnið um leið og hann áttaði sig á að þar voru of margir. 

„Ég veit nú ekkert meira um þetta mál en ég hef lesið í fjölmiðlum. Og ef það er rétt sem þar kemur fram. Þá er þetta klárlega brot á sóttvarnareglur. Mér finnst það miður að þetta hafi gerst,“ segir Þórólfur.

Það vekur athygli að sjálftur sagði Bjarni í færslu á Facebook færslu 8. mars: „Það er eingöngu með órjúfanlegri samstöðu sem okkur mun takast að lágmarka skaðann af þessum faraldri.“  Bjarni vildi ekki veita fréttastofu viðtal í morgun. Þá hefur fréttastofa ekki náð tali af forsætisráðherra.

Sóttvarnalæknir vonar að hegðun Bjarna í gærkvöldi hvetji fólk ekki til þess að fara eins fram.

„Nei, ég bara svo sannarlega vona að fólk hugsi ekki þannig. Á engan hátt réttlætir það að fara ekki eftir reglunum ef einhver annar gerir það ekki, jafnvel þótt það séu forystumenn þjóðarinnar. Það má bara ekki hugsa þannig. Við þurfum samt sem áður að líta þetta alvarlegum augum. Það er bara mjög slæmt þegar forystumenn þjóðarinnar fara ekki eftir þessum reglum. Ég verð bara að segja það,“ segir Þórólfur.

Þórólfur segist ekki sjálfur ætla að hafa afskipti af málinu. Það sé á borði lögreglu.

„Mér finnst þetta mjög slæmt í raun og veru og er bara verulega leiður yfir þessu. Mér finnst bara mjög mjög leitt að heyra þetta,“ segir Þórólfur.

Hér má sjá allt viðtalið við Þórólf:

Mynd: RÚV / RÚV