Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Stefnir í messufall í Danmörku um jólin

24.12.2020 - 04:49
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Messufall verður í Danmörku yfir hátíðarnar, fari prestar landsins að ráðum biskupa, prófasta, samtaka danskra sóknarnefnda og heilbrigðisyfirvalda. Hin síðastnefndu birtu í gærkvöld enn nýjar sóttvarnareglur um fyrirkomulag helgihalds í dönsku þjóðkirkjunni og öðrum trúfélögum. Nýju tilmælin setja messuhaldi talsvert strangari skorður en þau sem gefin voru út degi fyrr, þann 22. desember.

Hálftíma messur og enginn söngur

Mælst er til þess að jólamessur vari ekki lengur en hálftíma og að hvorki kórar né kirkjugestir hefji upp raust sína í sálmasöng. Þetta varð til þess að danskir biskupar, prófastar, sóknarnefndir og fjöldi presta sendu frá sér sameiginlega fréttatilkynningu í gærkvöld, þar sem þeir hvetja til þess að allt helgihald verði fellt niður í kirkjum landsins fram yfir áramót.

„Okkur þykir það afar leitt, að við getum ekki mælt með því að halda guðsþjónustur um jólin og fram til sunnudagsins 3. janúar. Þar sem við fengum tilmælin (um sóttvarnaaðgerðir) ekki fyrr en nokkrum klukkustundum fyrir aðfangadag teljum við að það verði erfitt að halda jólaguðsþjónusturnar,“ segir í tilkynningunni.

Ráðherra kirkjumála, Joy Mogensen, tekur undir þessi hvatningarorð og það gerir líka formaður starfsfólks þjóðkirkjunnar, Gert R. Schmidt. Nýju reglurnar banna ekki messuhald, heldur leggja það í hendur presta og sóknarnefnda á hverjum stað að meta það, hvort halda skuli messu eða ekki.