Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Slæmt fordæmi hjá Bjarna, segir Þórólfur

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - rúv
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir veru Bjarna Benediktssonar í samkvæmi í gærkvöld þar sem sóttvarnareglur voru brotnar vera slæmt fordæmi. Hann segist eiga von á að almenningur taki þessu mjög illa.

Klárlega brot á reglum

Þórólfur segist aðeins hafa heyrt um málið í fréttum í morgun: 

„Og ef það reynist vera rétt þá finnst mér þetta bara vera miður að þarna hefur verið klárlega verið brot á sóttvarnareglum að ræða, sýnist mér.“

En það að forystumenn á Íslandi, varðandi COVID og fleira, hafi verið í þessum hópi, hvernig slær það þig?

„Ja, mér finnst það bara slæmt. Það er slæmt fordæmi og mér þykir það bara mjög miður, eins og ég segi, ef menn hafa leiðst út í þetta. Það er ekki gott til afspurnar, finnst mér.“

Telur að almenningur eigi eftir að taka illa

Heldurðu að þetta hleypi illu blóði í almenning sem reynir hvað hann getur til þess að halda sinni fámennu jólakúlu?

„Alveg klárlega. Ég á fastlega von á því, bara ef maður sér viðbröð hvernig var þegar ferðamálaráðherra á sínum tíma tók myndir og síðan þegar Víðir veiktist hreinlega hvernig umræðan þá af stað, Ég á ekki von á öðru en að menn taki þessu mjög illa.“ 

Nýtt tilfelli af bresku veirunni greint hérlendis

Þórólfur segir smittölur dagsins svipaðar og undanfarið:

„Það var tekið mikið af sýnum þ.a. þetta eru svona heldur færri hlutfallslega, það eru bara lágar tölur og ég er bara ánægður með það.“

Nú hefur veiruafbrigðið breska sem haldið hefur verið fram að smitaðist hraðar greinst tvisvar hérlendis. Einu sinni í byrjun desember og nú nýverið segir Þórólfur:

„Við höfum ekki séð neina útbreiðslu frekar og þessir einstaklingar fóru bara í einangrun og það er fylgst vel með því. Og vonandi verður ekkert meira úr því. Þetta sýnir bara gagnsemi skimunar á landamærum bæði fyrstu og annarrar skimunar.“