Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Logi segir Bjarna hljóta að íhuga afsögn

24.12.2020 - 13:10
Logi Einarsson á landsfundi Samfylkingarinnar 2020
 Mynd: Samfylkingin - Ljósmynd
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir mál Bjarna Benediktssonar líklegt til að grafa undan trausti fólks á sóttvörnum og minnka samstöðu. Bjarni hafi í lok október kynnt viðspyrnustyrki til fyrirtækja og þá lagt mikla áherslu á að fólk tæki sóttvarnir mjög alvarlega.

„Mín skoðun er sú að hann hlýtur að íhuga það alvarlega að segja af sér. Ef hann er ekki að gera það þá hljóta samstarfsflokkarnir tveir að pressa á hann vegna þess að ég trúi varla að hann hafi stuðning allra annarra ráðherra eða meirihluta Alþingis,“ segir Logi.

Logi segist þó ekki ætla að fullyrða neitt slíkt um vantrauststillögu á aðfangadagsmorgni. „Það er skynsamlegt fólk með honum í stjórninni og við skulum sjá hvort að þau taki ekki ábyrgð á þessum hlutum.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sætti gagnrýni í sumar eftir að hún hitti vinkonur sínar og myndir af því birtust á samfélagsmiðlum. „Þetta er nú ekki síður alvarlegt núna,“ segir Logi. „Við erum á þeim tímum þegar fjölskyldur þrá að hitta hverja aðra, það er búið að setja miklar takmarkanir þannig að fólk getur jafnvel ekki hitt afa og ömmu. Gleymum því ekki heldur að Bjarni er einn af oddvitum ríkisstjórnar sem setur það í stjórnarsáttmála að eitt hlutverkið sé að efla traust almennings á stjórnvöldum.“

„Það liggur í augum uppi að ef þau sem taka erfiðar en nauðsynlegar aðgerðir sem þrengja mjög að lífi fólks en treysta sér ekki til að fara eftir þeim sjálf þá hlýtur það að grafa undan trúverðugleika.