Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fámenn jólamessa páfa í skugga heimsfaraldurs

24.12.2020 - 23:32
epa08902944 A Carabinieri checkpoint in Piazza Venezia for the Red Zone on the occasion of the Christmas holidays during the second wave of the Covid-19 Coronavirus pandemic, in Rome, Italy, 24 December 2020.  EPA-EFE/CLAUDIO PERI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Tómlegt var um að litast á Péturstorginu í Róm að kvöldi aðfangadags, öfugt við það sem venja er til, og fámennt var í Péturskirkjunni sjálfri, þar sem Frans páfi þjónaði fyrir altari. Innan við tvö hundruð grímubúnir gestir sóttu messuna, aðallega starfsfólki Páfagarðs. Messan var haldin klukkan hálf átta að ítölskum tíma en ekki á miðnætti eins og venja er, vegna útgöngubanns sem í gildi er á Ítalíu kvölds og nætur.

Í venjulegu árferði er kirkjan full út úr dyrum í jólamessu páfa og þúsundum trúaðra hafði verið úthlutað aðgöngumiðum að jólamessunum í ár þegar heimsfaraldurinn dundi yfir.

Jafnframt safnast tugir og jafnvel hundruð þúsunda saman á Péturstorginu til að fylgjast með miðnæturmessunni, sem útvarpað er yfir torgið, en að þessu sinni var þar ekki köttur á kreiki, fyrir utan tvo lögreglumenn á vakt. Nýjar og strangari sóttvarnareglur tóku gildi á Ítalíu á aðfangadag; reglur, sem settar voru sérstaklega til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar um hátíðarnar.

Jólaboðskapurinn ekki fluttur af svölum Péturskirkjunnar á jóladag

Frans, sem varð 84 ára á dögunum, flytur heimsbyggðinni jólaboðskap sinn og blessun, Urbi et orbi, áttunda sinni á morgun, jóladag. Það gerir hann ekki af svölum Péturskirkjunnar, heldur í sjónvarpsávarpi sem tekið er upp í páfahöllinni. Er þetta einnig gert til að koma í veg fyrir að fólk flykkist á Péturstorgið í stórhópum. 

Ítalía varð á þriðjudag fyrsta Evrópuríkið þar sem yfir 70.000 dauðsföll hafa verið rakin til COVID-19 og í dag, aðfangadag, varð Ítalía áttunda landið í heiminum þar sem fleiri en tvær milljónir manna hafa greinst með sjúkdóminn.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV