Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Brexit-viðræður standa enn yfir

24.12.2020 - 13:42
Erlent · Bretland · Brexit · ESB · Evrópusambandið · Skotland
epa08902354 Reporters await for news outside 10 Downing Street in London, Britain, 24 December 2020. Talks between Britain and the EU on a post-Brexit trade agreement continued through the night, nearing a possible deal which is expected to be announced on the day, media reported.  EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA
Blaðamenn mættu snemma morguns fyrir utan Downingstræti 10 því orðrómur hafði verið um að Johnson myndi halda ræðu. Af því hefur ekki enn orðið.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Brexit viðræður virðast vera á lokametrunum og fundað var fram á nótt. Fyrsti ráðherra Skota, Nicola Sturgeon, segir útkomuna hörmulega fyrir skoska bændur, þegar kemur að útflutningi grænmetis.

Búist var við því að tilkynnt yrði um útgöngusamning í morgunsárið. Fréttamenn komu sér fyrir við Downingstræti tíu því talið var nær víst að Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, myndi flytja ávarp um samninginn.

Í Brussel fór samningamaður Breta, David Frost, snemma í morgun frá skrifstofu Fastanefndar Breta þar í borg til fundar við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Samkvæmt heimildum ýmissa fjölmiðla í Evrópu hafa viðræðurnar gengið ágætlega síðustu daga. Verið sé að leggja lokahönd á samning, en að erfiðast reynist að ná saman um fiskveiðiréttindi Evrópuríkja í breskri lögsögu. Breska ríkisútvarpið greinir frá því að viðræður standi enn yfir. Johnson greindi ríkisstjórn sinni frá stöðunni í gærkvöld.

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands, sagði í færslu á Twitter í morgun að útkoman væri hörmuleg fyrir skoska bændur, líkt og annað tengt Brexit, sem hafi verið þröngvað upp á Skota gegn þeirra vilja.

Samkvæmt frétt Guardian hefur ekki verið samið um viðskipti með útsæðiskartöflur. Útflutningur á þeim verður bannaður frá Bretlandi til aðildarríkja ESB um áramót. Heimilt verður að flytja út grænmeti en ekki útsæði. Verði þetta lokaniðurstaðan yrðu áhrifin töluverð í Skotlandi og í norðurhluta Englands. Tuttugu prósent uppskerunnar í Skotlandi síðustu ár hafa verið flutt til aðildarríkja ESB.