Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bönnuð jól

Mynd með færslu
 Mynd: - - Pexels

Bönnuð jól

24.12.2020 - 09:00

Höfundar

Jólin eru ein mesta hátíð kristinna manna, en samt hefur það komið nokkrum sinnum fyrir að jólin hafa verið bönnuð í löndum þar sem flestir höfðu alist upp við kristna trú.

Á valdatíma púrítana í Englandi 1644-1660 var bannað að halda jól þar sem púrítanar töldu að þau væru ekki kristileg. Í Sovétríkjunum og á Kúbu á 20. öld voru jólin hins vegar bönnuð af því að þau voru kristileg og þóttu ekki samrýmast kommúnískum lífsskoðunum.

Í þættinum Bönnuð jól er fjallað um jólabannið á Englandi, í Sovétríkjunum og á Kúbu.

Fasta og syndajátningar í stað jólahalds

Púrítanar voru strangtrúaður hópur manna sem náðu völdum á Englandi eftir borgarastyrjöld skömmu fyrir miðja 17. öld. Árið 1643 gaf stjórn púrítana út þá yfirlýsingu að um vetrarsólstöður bæri almenningi heldur að fasta og minnast synda sinna en að halda hátíð sem kölluð væri í minningu Krists en væri ekki annað en veisla holdlegra girnda. 1644 voru jólin hreinlega bönnuð og 1647 fyrirskipaði þingið að þau skyldu algjörlega tekin út úr dagatalinu sem hátíð – og ekki aðeins jólin, heldur páskar og hvítasunna líka. Að sjálfsögðu tók fólk því ekki þegjandi þegar þessi stórhátíð var tekin af því. Í mörgum borgum var mótmælt og óeirðir brutust út. Púrítanar höfðu fyrirskipað að jóladagur væri almennur vinnudagur og búðir skyldu vera opnar, en sumstaðar réðist bálreiður múgur á opnar verslanir.

Handtekinn fyrir að vera við ólöglega jólamessu

Gagnrýni púrítana á jólin snerist upphaflega um það að jólaveislur væru óhóflegar og hefðu í för með sér ýmiskonar siðleysi eins og dans og leikaraskap. Það kom hins vegar í ljós þegar jólabannið tók gildi að það snerist ekki aðeins um veislur og skemmtanir, kirkjum var líka bannað að messa eða minnast fæðingar Krists. John Evelyn, enskur maður sem var andvígur púrítönum og trúarskilningi þeirra, tók þátt í ólöglegri jólamessu árið 1657 og skrifaði um það í dagbók sína:

Guðsþjónustan endaði þannig, að þegar hann [presturinn] var að útdeila okkur helgu sakramenti, var kapellan umkringd hermönnum. Allir sem voru til altaris og viðstaddir samkomuna voru teknir til fanga af þeim, sumir í húsinu, aðrir voru bornir burt.

Evelyn var látinn laus eftir yfirheyrslu. Hann segir þannig frá:

Þessir aumu villutrúarmenn beindu byssustingjunum að okkur þegar við komum til að meðtaka heilagt sakramenti eins og þeir ætluðu að skjóta okkur við altarið, en leyfðu okkur samt að ljúka við altarisgönguna þar sem þeir hafa kannski ekki fengið neinar fyrirskipanir um það hvað þeir ættu að gera ef þeir kæmu að okkur við þá athöfn.

Leynileg jól í sovéskum fangabúðum

Árið 1929 voru jólin bönnuð í Sovétríkjunum á þeim forsendum að þessi aukafrídagur truflaði vinnuvikuna og mikilvægt væri að vinna í þágu samfélagsins. Sama ár var sala á jólatrjám bönnuð í Leníngrad að viðlagðri sekt. Árið 1935 var gerð málamiðlun með því að færa sumar af jólavenjunum til áramóta. Þetta mildaði jólabannið í augum sumra, en ekki allra, því þrátt fyrir allt voru þetta ekki jól. Sumir buðu banninu byrginn og héldu jól þrátt fyrir bannið. Jafnvel eru til frásagnir af því að föngum hafi stundum tekist að halda leynileg jól í gúlaginu, hinum illræmdu fangabúðum Sovétríkjanna. Í bókinni „Gulag, a history“ eftir Anne Applebaum má sjá tilvitnun í Yuri Zorin, en hann var viðstaddur leynilega jólaveislu sem litháískir fangar héldu í fangabúðunum. Þeir höfðu safnað vistum til hátíðarinnar í heilt ár, jafnvel laumað inn vodka í smáskömmtum í skónum sínum. Zorin segir:

Hugsið ykkur, í fangabragga, borð með öllu mögulegu, vodka, skinku, öllu sem hægt er að hugsa sér.

Fyrsta jólaplatan í aldarfjórðung

Á Kúbu var gerð bylting á 6. áratugnum undir forystu Fidels Castro og stofnað var kommúnískt ríki. Árið 1969 lýsti Castro því yfir að jólahátíðin skyldi afnumin. Þetta var ekki eingöngu út af andúð kommúnista á kristinni trú, heldur líka af því að á jólum var tími sykuruppskerunnar á Kúbu og stjórnvöldum þótti óheppilegt að hafa frídag á svo mikilvægum tíma fyrir þjóðarbúið. Jólabannið á Kúbu stóð til ársins 1998, en þá var slakað á reglunum eftir heimsókn Jóhannesar Páls II páfa til Kúbu og jólahald var aftur leyft. Tveimur árum seinna kom út fyrsta kúbanska jólaplatan í aldarfjórðung og mátti þar finna kúbönsk jólalög eins og „Navidad Guajira“ eftir Cesar Pérez Sentenat og „Guiame a Belén“ eftir Olgu de Blank.