Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Auglýstu eftir starfsfólki vegna hamfaranna

24.12.2020 - 13:24
Mynd: Hjalti Stefánsson / RÚV
Heilbrigðisstofnun Austurlands hefur þurft að auglýsa eftir fólki til þess að vinna um jól og áramót, vegna hamfaranna á Seyðisfirði. Fjöldi fólks hefur boðið fram aðstoð sína. Allt er nú með kyrrum kjörum á Seyðisfirði.

Á annað hundrað Seyðfirðinga fá ekki að snúa til síns heima fyrr en í fyrsta lagi 27. desember, vegna yfirvofandi skriðuhættu á ákveðnum svæðum í bænum. Hreinsunarstarf hófst í bænum í gær, eftir skriðurnar sem féllu í síðustu viku, en hlé hefur nú verið gert á því starfi fram yfir jól og allt er nú með kyrrum kjörum í bænum, segir Davíð Auðbergsson vettvangsstjóri.

Atburðirnir hafa haft mikil áhrif á starfsemi Heilbrigðisstofnunar Austurlands, en flytja þurfti 17 íbúa af hjúkrunarheimilinu Fossahlíð á Seyðisfirði eftir að ákveðið var að rýma það.

„Það eru þrír sem dvelja hjá ættingjum, það eru fimm inniliggjandi í Neskaupstað og átta íbúar eru á Dyngju á Egilsstöðum,“ segir Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Gífurlegt áfall

Á sjúkrahúsinu í Neskaupstað hefur þurft að auka mönnun vegna þessarar stöðu.

„Hér á Egilsstöðum höfum við verið með starfsfólk Seyðisfjarðar ennþá og svo mannað með aukavöktum starfsfólks í Dyngju,“ segir Nína Hrönn. „En nú er ljóst að við þurfum að losa starfsfólk Fossahlíðar undan vegna þess að álagið á þau er ofsalega mikið og áfallið sem þau hafa orðið fyrir er gífurlegt. Þannig að núna erum við að vinna í því að reyna sem mest að leysa þau undan vinnuskyldu milli jóla og nýárs og erum að biðla til fólks að aðstoða okkur í því. Það hefur gengið mjög vel, alveg vonum framar, og það er verið að stoppa í síðustu götin.“

Þannig að þið hafið hreinlega auglýst eftir fólki?

„Já, við gerðum það í gær, á samfélagsmiðlum, og á starfsmannafundi HSA.“

Nína Hrönn segir að stór hluti þeirra sem hafa boðið sig fram séu fyrrum starfsmenn HSA, auk þess sem starfsfólk af öðrum deildum stofnunarinnar hafi komið til hjálpar.

„Þannig að það er ofsalega þakkarvert núna yfir hátíðarnar að taka af sínum frítíma til þess að hjálpa til,“ segir hún.